Afhending trúnaðarbréfa í Genf
Einar Gunnarsson sendiherra tók við stöðu fastafulltrúa í Genf fyrr í mánuðinum og hefur nú lokið afhendingu trúnaðar- og fulltrúabréfa frá Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands og Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra til forstöðumanna helstu alþjóðastofnana.
Tatiana Valovaya, yfirmaður Genfarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna tók fyrir hönd António Guterres, aðalritara, við trúnaðarbréfi fastafulltrúa frá forseta Íslands. Valovaya hafði sérstakt orð á markvissu framlagi Íslands til starfs Sameinuðu þjóðanna í Genf og fastafulltrúi ítrekaði hagsmuni og áherslur Íslands í starfi samtakanna. Þar ber hæst mannréttindi og mannúðarmál og á Ísland í nánu samstarfi við Mannréttindaskrifstofu SÞ (OHCHR), Samhæfingarskrifstofu aðgerða SÞ í mannúðarmálum (OCHA) og Flóttamannastofnun SÞ (UNHCR). Þá starfar Mannréttindaráð SÞ í Genf þar sem Ísland talar fyrir mannréttindum allra, með sérstakri áherslu á jafnréttismál og málefni hinsegin fólks. Ísland leggur jafnframt vaxandi þverlæga áherslu á málefni barna í samræmi við stefnumörkun Alþingis og ríkisstjórnar.
Í Genf starfa fjölmargar aðrar alþjóðastofnanir í misnánum tengslum við Sameinuðu þjóðirnar. Má nefna þar sem dæmi Alþjóðavinnumálastofnunina og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina þar sem Ísland tekur þátt í starfinu eftir föngum. Á vettvangi þeirrar síðarnefndu hefur náðst ákveðinn árangur í að meiri áhersla sé lögð á málefni mænuskaða. Þá er Genf lykilvettvangur alþjóðlegs starfs í afvopnunarmálum sem er eins og geta má mikilvægt sem aldrei fyrr.
Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) starfar sjálfstætt og óháð ríkjum heims og stendur vörð um Genfarsáttmálana og alþjóðleg mannúðarlög og minnir stríðandi fylkingar á skuldbindingar sínar. Þá veitir ICRC óbreyttum borgurum fjölþætta þjónustu á stríðshrjáðum svæðum. Ísland er aðili að Genfarsáttmálunum og styður við mannúðarstarf ICRC á þeim grunni. Fastafulltrúi átti fund með Peter Maurer, forseta ICRC, og afhenti honum hefðbundið bréf frá utanríkisráðherra um umboð sitt til að styðja við starf stofnunarinnar fyrir hönd íslenskra stjórnvalda. ICRC er mikilvægur samstarfsaðili Íslands í alþjóðlegu mannúðarstarfi í gegnum öflugt starf Rauða kross Íslands en utanríkisráðuneytið styður stofnunina einnig með beinum framlögum.
Aðild Íslands að EFTA er sem fyrr ein meginstoða íslenskrar utanríkisviðskiptastefnu. Fastafulltrúi átti fund með Henri Gétaz, aðalframkvæmdstjóra EFTA og afhenti honum fulltrúabréf sitt frá utanríkisráðherra. Víðtækt net fríverslunarsamninga EFTA ásamt EES samningnum er ein af grundvallarforsendum öflugs og útflutningsdrifins hagkerfis á Íslandi. Fastafulltrúi ítrekaði vilja Íslands til að bæði fjölga fríverslunarsamningum EFTA en ekki síður á að uppfæra þá sem fyrir eru. Þar er meðal annars litið til þess að tekið sé á félags, vinnu- og umhverfismálum með ábyrgum hætti og að Ísland beiti sér fyrir öflugum ákvæðum um kynjajafnrétti svo tryggja megi að aukin viðskipti á grundvelli samninganna gagnist öllum jafnt.
Alþjóðaviðskiptastofnunin (WTO) er helsti vettvangur ríkja heims til að semja um leikreglur alþjóðaviðskipta og tryggja að þeim sé framfylgt. Ísland er opið og lítið hagkerfi og hefur mikla hagsmuni af því að þetta regluverk sem mótast hefur frá seinna stríði sé styrkt í sessi og fært í nútímalegra horf. Þannig er íslenskum inn- og útflytjendum skapaður fyrirsjáanleiki í alþjóðlegum viðskiptum og möguleikar stærri aðildarríkja til að nota afl sitt gegn þeim smærri takmarkaðir. Fastafulltrúi ítrekaði þessar áherslur Íslands þegar hann afhenti Ngozi Okonjo-Ikeweala, framkvæmdastjóra WTO, fulltrúabréf sitt frá utanríkisráðherra. Hún notaði tækifærið og þakkaði Íslandi sérstaklega fyrir öflugt starf á vettvangi WTO og nefndi sem dæmi leiðandi hlutverk Íslands á vettvangi jafnréttismála og baráttu gegn skaðlegum ríkisstyrkjum í sjávarútvegi.
Fastanefndin gegnir jafnframt hlutverki sendiráðs gagnvart Sviss, Liecthenstein og Páfagarði og verða trúnaðarbréf afhent þar á næstu mánuðum.