Hoppa yfir valmynd
30. nóvember 2022 Utanríkisráðuneytið

Atlantshafsbandalagið áréttaði stuðning við Úkraínu

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra ásamt Bogdan Aurescu, utanríkisráðherra Rúmeníu, og Jens Stoltenberg, frkvstj. Atlantshafsbandalagsins - myndAtlantshafsbandalagið

Stuðningur bandalagsríkja við Úkraínu vegna innrásar Rússlands var í brennidepli utanríkisráðherrafundar Atlantshafsbandalagsins sem lauk í dag. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tilkynnti á fundinum um aukið framlag Íslands til kaupa á búnaði fyrir varnarsveitir Úkraínu.

Utanríkisráðherrafundur Atlantshafsbandalagsins fór að þessu sinni í Búkarest, höfuðborg Rúmeníu. Hann markaði tímamót að því leyti að hann var sá fyrsti þar sem utanríkisráðherrar Finnlands og Svíþjóðar tóku þátt í öllum vinnulotum, með stöðu boðsríkja, sem er mikilvægt skref í átt að fullri aðild.

Viðbrögð bandalagsríkjanna við innrás Rússlands í Úkraínu voru aðalumfjöllunarefni ráðherranna á fyrri degi fundarins. Þar gafst ríkjunum tækifæri til að tilkynna frekari stuðning, m.a. með auknum framlögum til samstarfssjóða bandalagsins fyrir Úkraínu. Ísland hefur nú þegar veitt um eina milljón evra í sjóðina en á fundinum í Búkarest greindi Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra frá um einnar milljónar evru framlag til viðbótar til kaupa á rafstöðvum og vetrarskýlum fyrir varnarsveitir Úkraínu.

„Vetrarkuldinn nístir fast í Úkraínu, það fann ég mjög áþreifanlega í heimsókninni til Kænugarðs í vikunni. Þótt við útvegum Úkraínu ekki vopn getum við samt lagt okkar af mörkum við hríðversnandi aðstæður með því að fjármagna kaup á vetrarskýlum og rafstöðvum fyrir úkraínsku varnarsveitirnar. Þetta framlag kemur til viðbótar við kaup íslenska ríkisins á hlýjum vetrarklæðnaði, að ógleymdum lopasokkunum sem Íslendingar hafa prjónað af svo mikilli elju,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Ráðherrarnir ræddu jafnframt framtíðarsamband Atlantshafsbandalagsins og Úkraínu og fóru yfir viðbrögð gegn fjölþáttaaðgerðum og áhrifum Rússlands. Deginum lauk með óformlegum vinnukvöldverði með Dmytro Kuleba utanríkisráðherra Úkraínu þar sem áfram var rætt um stuðning við Úkraínu og þróun öryggismála í álfunni.

Seinni fundardagurinn var meðal annars helgaður umræðu um aðgerðir og stefnu bandalagsins til að efla viðnámsþol, þ.m.t. orkuöryggi, grunninnviði og birgðakeðjur. Ýmsar áskoranir í alþjóðamálum, meðal annars staða Kína í öryggispólitísku samhengi, voru jafnframt til umfjöllunar. Í lok fundar ræddu ráðherrarnir öryggisáskoranir með utanríkisráðherrum Bosníu og Hersegóvínu, Georgíu og Moldóvu. Ríkin þrjú hafa sætt þrýstingi af hálfu Rússlands og áréttuðu ráðherrarnir af því tilefni áframhaldandi stuðning bandalagsins við þau.

„Það sem stendur upp úr eftir fundinn í Búkarest er tvímælalaust sú eining sem ríkir á meðal aðildarríkjanna um áframhaldandi stuðning við Úkraínu og staðfesta í fælingu og vörnum. Á slíkum tímum getur slík samstaða skipt sköpum,“ segir Þórdís Kolbrún.

Utanríkisráðherra átti jafnframt tvíhliða fund með Bujar Osmani, utanríkisráðherra Norður-Makedóníu og var forysta beggja ríkja í alþjóðastofnunum þar efst á baugi. Ísland tók á dögunum við formennsku í Evrópuráðinu og Norður-Makedónía tekur við formennsku í Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) á ráðherrafundi sem fer fram í Łódź í Póllandi í vikunni. Þangað heldur Þórdís Kolbrún síðar í dag. Þá áttu þau Zbigniew Rau, utanríkisráðherra Póllands, stuttan fund í morgun en á morgun, 1. desember, verður nýtt sendiráð Íslands í Varsjá formlega opnað. 

Sameiginleg yfirlýsing utanríkisráðherrafundar Atlantshafsbandalagsins.

  • Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra ásamt Bogdan Aurescu, utanríkisráðherra Rúmeníu, og Jens Stoltenberg, frkvstj. Atlantshafsbandalagsins - mynd
  • Utanríkisráðherrar Íslands og Norður-Makedóníu á rökstólum - mynd
  • Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Zbigniew Rau, utanríkisráðherra Póllands - mynd
  • Utanríkisráðherrar Norðurlanda saman á ráðherrafundi NATO í fyrsta sinn - mynd
  • Þórdís Kolbrún ræðir við Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur og Urmas Reinsalu, utanríkisráðherra Eistlands. - mynd

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta