Hoppa yfir valmynd
1. desember 2022 Utanríkisráðuneytið

Sendiráð Íslands í Varsjá tekur til starfa

Þórdís Kolbrún og Arkadiusz Mularczyk, aðstoðarutanríkisráðherra Póllands klippa á borða í fánalitunum - myndUtanríkisráðuneytið

Nýtt sendiráð Íslands í Varsjá, höfuðborg Póllands, var opnað í dag. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Arkadiusz Mularczyk, aðstoðarutanríkisráðherra Póllands sóttu hátíðarmóttöku sem haldin var í húsakynnum sendiráðsins af þessu tilefni.

Það var hátíðleg stund þegar ráðherrarnir tveir klipptu á borða í fánalitum Íslands og Póllands í móttökunni sem fram fór í Focus-byggingunni í Varsjá þar sem aðsetur sendiráðsins verður. Á meðal þeirra sem sóttu viðburðinn var forystufólk í pólsku stjórnmála-, viðskipta- og menningarlífi auk fulltrúa íslenskra fyrirtækja í Póllandi og pólsk-íslenskra vináttufélaga.

„Þetta er sannkallaður hátíðisdagur sem markar mikil tímamót í sambandi þessara tveggja vinaþjóða. Pólland er lykilríki í Evrópu og það er mikilvægt að nú ríkir loks gagnkvæmni í utanríkissamskiptum okkar. Jafnvel enn meira máli skipta þó þeir möguleikar sem skapast á aukinni samvinnu nú þegar við höfum einnig opnað sendiskrifstofu. Þeir eru á sviði sjávarútvegs, orkumála og ferðaþjónustu svo fátt eitt sé nefnt, og auðvitað líka á vettvangi lista og menningar,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Ráðherrarnir fluttu báðir hátíðarávörp í tilefni opnunarinnar þar sem góð samskipti þjóðanna tveggja voru tíunduð. Þórdís Kolbrún minntist sérstaklega á samvinnu á sviði öryggis- og varnarmála, viðskipta og orkumála og vék líka að framlagi hinna pólsku Karmel-systra í Hafnarfirði til mannúðar- og góðgerðarmála á Íslandi. Að loknum ávörpum ráðherranna léku bræðurnir Frach nokkur lög en þeir eru fæddir og uppaldir á Íslandi.

Sendiráðið í Varsjá er 27. sendiskrifstofa Íslands erlendis. Auk Póllands fer sendiráðið með fyrirsvar gagnvart Úkraínu, Búlgaríu og Rúmeníu. Hannes Heimisson er sendiherra Íslands í Varsjá.

Sendiráðið er með vefsíðu á Stjórnarráðsvefnum. Einnig heldur það úti vefsíðum á ensku og pólsku.

Þá er sendiráð Íslands í Varsjá á Facebook, Twitter og Instagram.

  • Hannes Heimisson sendiherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra - mynd
  • Bræðurnir Frach léku nokkur lög  - mynd
  • Bræðurnir Frach léku nokkur lög  - mynd

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta