Afhending fullgildingarskjala fyrir samning WTO um styrki til sjávarútvegs
Einar Gunnarsson, sendiherra Íslands í Genf, afhenti í dag Nogozi Okonji-Iweala, framkvæmdastjóra Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO), fullgildingarskjöl Íslands fyrir samning WTO um styrki til sjávarútvegs.
Samningurinn var gerður á tólfta ráðherrafundi WTO þann 17. júní 2022 og kveður á um bann við ríkisstyrkjum sem stuðla að ólöglegum, ótilkynntum og stjórnlausum fiskveiðum, bann við styrkjum til veiða úr ofveiddum fiskistofnum og bann við styrkjum til úthafsveiða á svæðum utan lögsögu svæðisbundinna fiskveiðistjórnunarstofnanna.
Yfirstandandi eru sem stendur frekari samningaviðræður á vettvangi WTO um takmarkanir ríkisstyrkja sem stuðla að umframveiðigetu og ofveiði og er ætlunin að fella niðurstöðu þeirra inn í þennan samning á síðari stigum. Einar Gunnarsson stýrir einmitt þeim viðræðum sem formaður samninganefndar WTO um viðskiptareglur.
Samningur WTO um styrki til sjávarútvegs er fyrsti samningur stofnunarinnar sem hefur það markmið að nýta viðskiptareglur til að stuðla að sjálfbærni. Hann mun formlega taka gildi þegar tveir þriðju hlutar aðildarríkja Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar hafa staðfest hann.
Nú þegar hafa fimm aðildarríki fullgilt samninginn auk Íslands; Sviss, Singapúr, Seychelles-eyjar, Kanada og Bandaríkin.