Hoppa yfir valmynd
9. júní 2023 Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Utanríkisráðuneytið

Efnahagshorfur heimsins og alþjóðaviðskipti rædd á ráðherraráðsfundi OECD

Frá ráðherraráðsfundi OECD í París.  - myndMynd/OECD

Ráðherraráðsfundur Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, fór fram í París í vikunni og sat Bjarni Benediktsson hann fyrir Íslands hönd. Þema fundarins í ár voru sameiginleg gildi í alþjóðasamstarfi (e. Sharing a resilient future: Shared values and global partnerships).

Á fundinum var m.a. farið yfir efnahagshorfur í heiminum og alþjóðaviðskipti. Sérstök áhersla var lögð á jafnrétti kynjanna og mikilvægi þess í aukinni hagsæld samfélaga. OECD hefur t.a.m. reiknað það út að ef jöfn þátttaka kynjanna á vinnumarkaði næðist árið 2060, myndi það auka hagvöxt OECD ríkja alls um 9,2%.

Á fundinum skrifuðu James Cleaverly, utanríkisráðherra Breta, sem fór með formennskuna í ár, Mathias Cormann, framkvæmdastjóri OECD og Denys Shmyhal, forsætisráðherra Úkraínu, undir landsáætlun OECD fyrir Úkraínu um umbætur á stjórnsýslu og skýrari stefnumörkun stjórnvalda sem byggist á stöðlum og gildum OECD. Mun vinnan styrkja enn frekar enduruppbyggingu Úkraínu eftir stríð og undirbúa jarðveginn fyrir hugsanlega aðild Úkraínu að OECD í náinni framtíð. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, tilkynnti um fjárhagslegan stuðning Íslands við landsáætlunina og greindi jafnframt frá alþjóðlegu tjónaskránni fyrir Úkraínu, sem sett var á stofn á leiðtogafundi Evrópuráðsins í Reykjavík í síðasta mánuði.

Á fundinum voru tækifæri og ógnanir örra tækniframfara rædd, m.a. lausnir til að sporna við og takast á við loftslagsbreytingar og þær siðferðislegu og vinnumarkaðstengdu áskoranir sem aukin notkun gervigreindar hefur í för með sér.

Fjármála- og efnahagsráðherra fundaði jafnframt með Clare Lombardelli, aðalhagfræðingi OECD, Fabriziu Lapecorella aðstoðarframkvæmdastjóra OECD og Manal Corwin, sem leiða málaflokka skattamála og mótvægisaðgerðir ríkja gegn loftslagsvánni hjá OECD.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta