Hoppa yfir valmynd
27. júní 2023 Utanríkisráðuneytið

Fríverslunarsamningur við Moldóvu undirritaður á ráðherrafundi EFTA

Ráðherrar EFTA-ríkjanna og efnahagsmálaráðherra Moldóvu, Dumitru Alaiba, undirrituðu í dag nýjan fríverslunarsamning að viðstöddum forsætisráðherra Moldóvu, Dorian Recean. Undirritunin fór fram á ráðherrafundi EFTA sem haldinn var í Schaan í Liechtenstein í dag. EFTA-ráðherrarnir áttu jafnframt fjarfund með efnahagsmálaráðherra Úkraínu, Yliia Svyrydenko, þar sem viðræðum um uppfærslu á fríverslunarsamningi EFTA við Úkraínu var ýtt úr vör.

„Það endurspeglar pólitískt mikilvægi samningsins fyrir Moldóvu að forsætisráðherrann ákveður að vera viðstaddur undirritun hans og það sama á við um ákvörðun EFTA-ríkjanna að hefja uppfærslu á fríverslunarsamningi okkar við Úkraínu. Samningurinn við Moldóvu og viðræður um uppfærslu fríverslunarsamningsins við Úkraínu fela í sér mikilvægan stuðning EFTA-ríkjanna við bæði ríki á erfiðum tímum,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Þrátt fyrir víðtækar áskoranir, svo sem vegna innrásarstríðs Rússlands í Úkraínu, loftslagsbreytinga og áhrifa heimsfaraldurs COVID-19, hefur EFTA ríkjunum tekist að halda góðum gangi í yfirstandandi fríverslunarviðræðum. Ísland leiddi viðræðurnar við Moldóvu sem tóku tvö ár. Samningurinn nær til hefðbundinna þátta svo sem vöru- og þjónustuviðskipta, opinberra innkaupa, samkeppnismála og ákvæða um sjálfbærni. Þetta er jafnframt fyrsti fríverslunarsamningur EFTA sem inniheldur sérstök ákvæði um stafræn viðskipti. 

EFTA ráðherrarnir áttu einnig fund með viðskiptaráðherra Singapúr, S. Iswaran, um gerð samnings um stafræn viðskipti og þá var haldinn fjarfundur með viðskiptaráðherra Indlands, Piyush Goyal, vegna yfirstandandi fríverslunarviðræðna EFTA og Indlands.

Í tengslum við ráðherrafund EFTA er fundað með þingmannanefnd EFTA og ráðgjafarnefnd EFTA þar sem farið er yfir stöðu fríverslunarviðræðna og þróun EES-samningsins. Um er að ræða mikilvægan og gagnlegan vettvang fyrir skoðanaskipti á milli ráðherranna og nefndanna beggja, en unnið hefur verið að því á síðustu árum að styrkja samstarfið þar á milli. 

Auk Þórdísar Kolbrúnar sátu fundinn Dominique Hasler, utanríkisráðherra Liechtenstein, Halvard Ingebrigtsen, vararáðherra í viðskipta- og iðnaðarráðuneyti Noregs, og Guy Parmelin, efnahagsmálaráðherra Sviss. Fundurinn markar lok eins árs formennsku Liechtenstein í EFTA-samstarfinu en Sviss tekur við formennskunni 1. júlí næstkomandi.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta