Á annan tug viðburða með íslenskum höfundum á Bókamessuni í Gautaborg
Läs denna text på svenska här (sænsk útgáfa).
Bókamessan í Gautaborg fór fram dagana 28. september til 1. október. Rithöfundarnir Fríða Ísberg, Sjón og Ævar Þór Benediktson mættu til leiks og tóku þátt í fjölmörgum viðburðum í samstarfi við sænsk bókaforlög og Miðstöð íslenskra bókmennta. Sendiherra Íslands var einnig á Bókamessunni og tók meðal annars þátt í norrænu málþingi um bókmenntastefnur auk þess sem sendiherra bauð til móttöku fyrir íslensku höfundana og fleiri góða gesti úr bókaiðnaði.
Fríða Ísberg hefur vakið verðskuldaða athygli í Svíþjóð síðustu misserin en bók hennar Merking kom út í sænskri þýðingu eftir Arvid Nordh í vor á vegum sænska forlagsins Norstedts. Bókin hlaut góða dóma og jákvæðar viðtökur lesenda. Hefur Fríða meðal annars komið fram í hinum vinsæla bókmenntaþætti Babel í sænska ríkissjónvarpinu SVT og í viðtölum, m.a. í dagblaðinu Dagens Nyheter. Árið 2022 hlaut Fríða sænsk bókmenntaverðlaun kennd við rithöfundinn Per Olov Engquist. Á meðal þeirra viðburða sem Fríða tók þátt í á Bókamessunni var samtal um dystópíu í norrænum bókmenntum.
Fjölmargar bækur eftir Sjón hafa komið út í sænskri þýðingu síðustu ár og áratugi og eru verk hans vel þekkt á meðal sænsks bókmenntaáhugafólks. Í ár jókst hróður hans svo enn er hann hlaut hin virtu norrænu verðlaun Sænsku akademíunnar. Á Bókmessunni las hann meðal annars úr ljóðasafni sínu en tók einnig þátt í ýmis konar pallborðssamtölum, til dæmis með danska rithöfundinum Solvej Balle þar sem bókmenntaverk sem taka áratugi í skriftum voru rædd. Sjón var einnig í viðtali við dagblaðið Dagens Nyheter þar sem samstarfið við sænska stórleikarann Alexander Skarsgård och leikstjórann Robert Eggers í kringum kvikmyndina The Northman bar á góma.
Barnabókahöfundurinn Ævar Þór Benediktsson sagði áheyrendum frá því hvernig honum hefur tekist að vekja lesáhuga barna með bókum sem svipa til tölvuleikja þar sem lesandinn getur haft áhrif á atburðarrásina. Hann tók einnig þátt í spjalli með hinum vinsæla sænska grínista og rithöfundi David Sundin um það hvernig hægt er að opna augu barna fyrir lestri og bókmenntum. Tvær bækur eftir Ævar hafa komið út í sænskri þýðingu eftir Söru Lindberg á þessu ári og sú þriðja er væntanleg á næsta ári. Ævar Þór fékk einnig kost á því að hitta unga íslenska lesendur á Gautarborgarsvæðinu í viðburði skipulögðum af íslenskukennaranum Kristínu Pálsdóttur með stuðningi sendiráðsins.
Þýðandinn John Swedenmark, sem er handhafi riddarkross hinnar íslensku Fálkaorðu, las úr nýútkominni þýðingu sinni á bókinni Opið haf eftir Einar Kárason. John tók þar að auki þátt í viðburði á vegum tímaritsins Ord & Bild, ásamt ritstjóranum Jonatan Habib Engqvist, þar sem nýjasta tölublaðið var kynnt en í því er að finna myndir og texta eftir íslenska listamenn, skáld og fræðimenn, t.d. Kristínu Ómarsdóttur, Ernu Mist, Önnu Maríu Bogadóttur, Bjargey Ólafsdóttur, Guðna Elíasson, Gísla Pálsson og Sjón.
Íslenskar barnabækur voru á meðal bóka sem voru til sýnis á vegum verkefnisins Bibylon sem er færanlegt barnabókasafn. Verkefninu er lýst sem listaverki sem heiðrar lýðræði, samstarf, menntun, menningu og framtíð heimsins sem býr í börnum. Bækurnar voru gjöf frá sendiráði Íslands.
Á vegum Bókamessunnar fór fram norrænt málþing um bókmenntastefnur þar sem aðilar úr bókaiðnaði, stjórnsýslu, stjórnmálum, vísindum ofl. voru kallaðir saman til að deila reynslusögum sín á milli, ræða áskoranir og hugsanlegar lausnir og dýpka samtal um málaflokkinn á milli Norðurlandanna. Sendiherra Íslands, Bryndís Kjartansdóttir, var fulltrúi Íslands á fundinum og tók hún þátt í pallborðsumræðum með sendiherrum hinna norrænnu ríkjanna í Svíþjóð.
Í móttöku sendiherra á Bókamessunni gafst gestum úr bókaiðnaði tækifæri til að hitta íslensku rithöfundana og fulltrúa Miðstöðvar íslenskra bókmennta. Til grundvallar umræða gesta á milli var grein eftir þýðandann John Swedenmark, sem dreift var í móttökunni, þar sem hann lýsir hugmyndum sínum um það hvernig greiða megi leið enn fleiri íslenskra höfunda að sænskum lesendum.
Sendiherra nýtti Gautarborgarheimsóknina einnig til þess að hitta menningarhóp sem kjörræðismaður Íslands í Gautaborg, Christina Nilroth, leiðir. Hópurinn samanstendur af aðilum, með fjölbreyttan bakgrunn tengdum ýmsum sviðum menningar og þjóðlífs, sem leitast eftir því að auka veg íslenskrar menningar í Svíþjóð.
Bókamessan í Gautaborg er sú stærsta sinnar tegundar á Norðurlöndum og þangað koma árlega um 100 þúsund gestir. Er því um að ræða mikilvægan vettvang til kynningar á íslenskum bókmenntum að ræða. Þátttaka sendiráðs Íslands í Bókamessunni og viðburðum henni tengdri er í samstarfi við Miðstöð íslenskra bókmennta og Skapandi Ísland.