Hoppa yfir valmynd
27. október 2023

Explanation of Vote at the Emergency Special Session of the UN General Assembly (Icelandic version)

Herra forseti,

Við komum saman í dag til sérstaks neyðarfundar vegna þess mikla harmleiks sem nú á sér stað fyrir milljónir Ísraela og Palestínumanna, og þeirrar pattstöðu sem er því miður upp  komin í öryggisráðinu.

Ísland studdi breytingartillögu Kanada sem hefði bætt nauðsynlegu samhengi og jafnvægi við ályktunina. Ísland harmar að sú tillaga hafi ekki fengið brautargengi.

Án þeirra nauðsynlegu þátta sem tillaga Kanada tók til ákvað Ísland að sitja hjá við ályktunina sem Jórdanía lagði fram, þrátt fyrir að styðja marga meginþætti hennar, einkum hvað mannúðarmál varðar.

Það er miður að ekki skyldi nást samstaða um ályktun um að bregðast við alvarlegri stöðu mannúðarmála og þörf fyrir áþreifanlegar aðgerðir til að vernda óbreytta borgara og auðvelda trygga afhendingu mannúðaraðstoðar.

Herra forseti,

Ísland tekur undir ákall um mannúðarhlé til að auðvelda örugga afhendingu mannúðaraðstoðar um allt Gaza. Tryggja þarf öruggt og óhindrað mannúðaraðgengi. Vernda verður almenna borgara og borgaralega hluti, heilbrigðisstarfsfólk og mannúðarstarfsfólk og eignir.

Við hörmum gríðarlegar þjáningar saklausra borgara og þeirra þúsunda manna, þar á meðal kvenna, barna og starfsfólks Sameinuðu þjóðanna, sem týnt hafa lífi. Við höfum áhyggjur af áhrifum brottflutnings fjölda almennra borgara á Gaza.

Við verðum að koma í veg fyrir frekari stigmögnun, vegna Ísraelsmanna, Palestínumanna og þessa heimshluta. Þetta linnulausa ofbeldi kyndir undir hatur, gyðingahatur, íslamófóbíu og kynþáttafordóma um allan heim.

Herra forseti,

Ísland þakkar aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna fyrir þrotlausa viðleitni hans til að tryggja brýna afhendingu lífsbjargandi mannúðaraðstoðar til almennra borgara á Gaza. Við tökum undir ákall hans um mannúðaraðstoð til almennra borgara á Gaza sem þarfnast svo sárlega matar, vatns, skjóls og læknishjálpar.

Við fögnum opnun landamærastöðvarinnar í Rafah og lofum mannúðarstarfsfólk sem vinnur dag og nótt við að auðvelda brýna afhendingu mannúðaraðstoðar. Meiri hjálpargagna er þörf og það nú. Tíminn er á þrotum.

Ísland hefur brugðist við neyðarákalli Sameinuðu þjóðanna með viðbótarframlagi til UNRWA, langvarandi samstarfsstofnunar Íslands í mannúðarmálum og þeirrar stofnunar Sameinuðu þjóðanna sem hefur umboð til að styðja palestínska flóttamenn. Við hvetjum önnur gjafríki til að auka stuðning sinn við mikilvægan framlínustuðning UNRWA við íbúa Gaza.

Herra forseti,

Við verðum að brjótast út úr þessum vítahring ofbeldis og vinna að varanlegri pólitískri lausn. Alþjóðlegu viðmiðin fyrir sjálfbæra langtímalausn deilunnar eru skýr: Tveggja ríkja lausn sem byggir á alþjóðalögum, þar sem Ísrael og Palestína búa hlið við hlið í friði og öryggi og við gagnkvæma viðurkenningu.

Jafnvel í miðju hættuástandi megum við ekki láta undan ofbeldi og hatri. Við megum ekki missa vonina jafnvel þótt friður virðist óraunhæfur og fjarstæður. Við verðum að koma friðarferlinu aftur á sporið. Að öðrum kosti eigum við á hættu að viðhalda hringrás ofbeldis og að mannúðaraðstæður versni enn frekar – öllum til skaða.

Þakka þér fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta