Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 2023

Ísland í heiðurssæti á Boréales menningarhátíðinni í Frakklandi

Við opnunarhátíð Boréales menningarhátíðarinnar í Normandí þar sem Ísland er í öndvegi og Eliza Reid, forsetafrú, heiðursgestur - mynd
Ísland er í öndvegi á norrænu menningarhátíðinni Festival les Boréales í Normandí sem stendur yfir frá 15. til 26. nóvember. Sendiráðið í París hefur tekið þátt í undirbúningi og stutt við hátíðina sem naut einnig stuðnings héraðsstjórnvalda, Caen-borgar og Skapandi Íslands. Flestir menningarviðburðirnir eru haldnir í eða í kringum borgina Caen og er reiknað með að um 30.000 manns mæti á dagskrá hátíðarinnar á þessu tímabili.

Fullt var út að dyrum á opnunarviðburðinum þar sem heiðursgestur hátíðarinnar, forsetafrú Íslands, Eliza Reid, fjallaði um bókina sína Sprakkar sem kom nýverið út í franskri þýðingu, og tók þátt í umræðum um kynjajafnrétti. Sendiherra Íslands, Unnur Orradóttir Ramette, flutti opnunarávarp ásamt fulltrúum stjórnvalda og listrænum stjórnanda hátíðarinnar, Jérôme Rémy.

Fjöldi íslenskra listamanna kemur fram á hátíðinni, þ. á m. rithöfundarnir Fríða Ísberg, Halldór Armand Ásgeirsson, Auður Ava Ólafsdóttir, Ragnar Jónasson, Yrsa Sigurðardóttir, Andri Snær Magnason, Torfi Túliníus, Guðmundur Felix Grétarsson, Nína Björk Jónsdóttir, Edda Magnus, Örvar Þóreyjarson Smárason, Sigrún Pálsdóttir og Lilja Sigurðardóttir. Les Boréales hefur gegnt mikilvægu hlutverki í að kynna íslenskar bókmenntir í Frakklandi og íslenskudeild háskólans í Caen menntað þá frönsku þýðendur sem gegna nú lykilhlutverki í vinsældum íslenskra bókmennta í Frakklandi.

Tónlistarfólkið Ásgeir, Árný Margrét, JFDR, Jóhannes Birgir Pálmason, Hálfdán Ákason, Hannes Helgason, jasstónlistarkonan Sunna Gunnlaugs og hljómsveitirnar GusGus og FM Belfast standa fyrir tónlistardagskrá hátíðarinnar. Þá verða íslensku kvikmyndirnar Hvítur, hvítur dagur, Þrestir, Bergmál og Lói - þú flýgur aldrei einn sýndar, auk þess sem kvikmynd Ninnu Pálmarsdóttur, Tilverur, er forsýnd í Frakklandi á hátíðinni.

Í samstarfi við bæjaryfirvöld í Caen fá bæjarbúar að njóta íslenskrar matargerðar víða um borgina á næstu dögum. Í kvöld mun meistarakokkurinn Friðrik Sigurðsson ríða á vaðið í einu fallegasta ráðhúsi Frakklands með íslensku hráefni. Þar munu gestir fá að bragða á fiskisúpu og eftirréttum úr Ísey skyri.

Fjöldi annara viðburða og kynninga á íslenskri menningu, landi og þjóð, verða á dagskrá í Caen í nóvember, m.a. sýning heimildamynda, fræðsludagskrá, fyrirlestrar og ljósmyndasýningar. Dagskrá hátíðarinnar má nálgast hér
  • Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra, flutti opnunarávarp - mynd
  • Ísland í heiðurssæti á Boréales menningarhátíðinni í Frakklandi - mynd úr myndasafni númer 2
  • Eliza Reid, forsetafrú, var heiðursgestur hátíðarinnar - mynd
  • Ísland í heiðurssæti á Boréales menningarhátíðinni í Frakklandi - mynd úr myndasafni númer 4
  • Ísland í heiðurssæti á Boréales menningarhátíðinni í Frakklandi - mynd úr myndasafni númer 5
  • Meistarakokkurinn Friðrik Sigurðsson undirbýr eftirrétt í samstarfi við Ísey skyr fyrir matarhátíðina Croc'Festival - mynd
  • Kvikmyndatónleikar í boði Jóhannesar Birgis Pálmasonar, Hálfdánar Árnasonar og Hannesar Helgasonar - mynd

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta