Þátttaka Birnu Ketilsdóttur Schram á alþjóðlegri stuttmyndahátíð í Frakklandi
Kvikmyndagerðarkonan Birna Ketilsdóttir Schram, sem hlaut í ár Verðlaun Sólveigar Anspach fyrir stuttmynd sína Allt um kring, tók nýverið þátt í alþjóðlegri stuttmyndahátíð í Clermont-Ferrand í Frakklandi. Þátttaka Birnu á stuttmyndahátíðinni var studd af sendiráði Íslands í París.
Verðlaun Sólveigar Anspach, sem franska sendiráðið á Íslandi og Alliance Française í Reykjavík standa fyrir, eru veitt konum fyrir fyrstu stuttmyndir þeirra á frönsku eða íslensku, tungumálum Sólveigar Anspach, og er þeim ætlað að hvetja ungar konur til dáða í kvikmyndaleikstjórn.
Sendiráðið óskar Birnu innilega til hamingju með verðlaunin og deilir með ánægju stuttum hugleiðingum hennar um þátttökuna á hátíðinni í Clermont-Ferrand:
"Fyrst og fremst vil ég þakka kærlega fyrir þann heiður að hljóta verðlaun Sólveigar Anspach og að fá tækifæri til að fara á Clermont Ferrand kvikmyndahátíðina.
Það var frábær upplifun að fara á svona stóra erlenda hátíð í fyrsta skiptið og sjá hvað stuttmynda heimurinn er stór utan Íslands.
Ég tók lestina frá París til Clermont og fékk strax vortilfinningu yfir mig, í blábyrjun febrúar, er ég steig út úr lestinni. Sólin skein og fuglarnir sungu.
Við tóku fjórir stútfullir dagar af dagskrá þar sem ég hoppaði milli kvikmyndahúsa, sá stuttmyndir á heimsklassa mælikvarða, hitti kvikmyndagerðarfólk og lærði betur að skilja markaðinn í kringum kvikmyndagerð.
Stundum upplifi ég mig sem “Palli er einn í heiminum” sem ung leikstýra svo það var frábært að fá tækifæri til að hitta aðra leikstjóra og spegla sig og skiptast á reynslu. Verða innblásin af myndunum og samtölunum sem ég átti við fólk. Í raun var þetta eins og ein stór ráðstefna fyrir upprennandi kvikmyndagerðarfólk allstaðar af.
Þetta var dýrmæt reynsla sem ég mun lengi búa að.
Kærar þakkir fyrir mig."