Hoppa yfir valmynd
11. júní 2024 Utanríkisráðuneytið

Ísland fjármagnar orkubúnað til Úkraínu í samstarfi við UNDP

Ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins tók þátt í afhendingarathöfn í gegnum fjarfundabúnað. - mynd

Ísland færði Úkraínu orkubúnað í síðustu viku sem styður við starfsemi sjö raforkustöðva víðs vegar í landinu. Um er að ræða samstarfsverkefni Íslands og Þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna (UNDP) en ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins tók þátt í afhendingarathöfn í gegnum fjarfundabúnað þar sem Ísland, ásamt Suður-Kóreu, færðu úkraínska orkufyrirtækinu Ukrenergo búnaðinn. 

„Efling orkuinnviða er mikilvægur þáttur í stuðningi Íslands við Úkraínu,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. „Orkuinnviðir eru illa farnir sökum kerfisbundinna árása Rússlands sem hefur, eins og gefur að skilja, mikil áhrif á daglegt líf íbúa landsins. Þetta verkefni er frábært dæmi um öflugt samstarf Íslands við stofnanir Sameinuðu þjóðanna, og önnur ríki, í þágu Úkraínu. Ísland mun halda áfram að mæta þörf Úkraínu þar sem hún er mest, og á þeim sviðum þar sem sérþekking Íslands kemur að góðum notum.“

Verkefnið er hluti af stærra verkefni UNDP í orkumálum í Úkraínu en framlag Íslands til þess nam 500 þúsund bandaríkjadölum á síðasta ári.

Orkuinnviðir í Úkraínu hafa sætt kerfisbundnum árásum af hendi Rússlands frá því allsherjarinnrás Rússa hófst í febrúar 2022. Ísland hefur auk framangreinds framlags veitt fjármagni í orkusjóð fyrir Úkraínu (Ukraine Energy Support Fund) á vegum evrópsks samstarfsvettvangs um orkumál (Energy Community) auk þess sem stuðningur íslenskra stjórnvalda við Úkraínu sem fer um Alþjóðabankann snýr að uppbyggingu orkuinnviða í landinu. Þá hafa íslensk dreifi- og veitufyrirtæki, í samstarfi við utanríkisráðuneytið, sent nauðsynlegan raforkubúnað af ýmsu tagi til Úkraínu, að verðmæti 60 milljón króna.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum