Hoppa yfir valmynd
25. júní 2024 Utanríkisráðuneytið

Fjögur fyrirtæki fá styrki úr Heimsmarkmiðasjóði atvinnulífs

Fjögur fyrirtæki fengu í síðustu viku styrki frá utanríkisráðuneytinu úr Heimsmarkmiðasjóði atvinnulífs vegna samstarfsverkefna í þróunarríkjum. Markmið sjóðsins er að hvetja til þátttöku og framlags atvinnulífsins til þróunarsamvinnu. Fyrirtækin sem um ræðir eru Hananja, VAXA Technologies, Íslenski sjávarklasinn og Kerecis. 

„Það er virkilega ánægjulegt að sjá hversu metnaðarfull og ólík verkefnin eru sem nú hljóta styrki. Aðkoma atvinnulífsins og sú fjölbreytta þekking sem þar er að finna eru mikilvægir liðir í því að styðja við þróunarríki og auka þar velsæld. Ég hlakka til að fylgjast með framkvæmd verkefnanna þegar fram líða stundir,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Hér fyrir neðan má lesa nánar um verkefnin sem hlutu styrki að þessu sinni:

Áframhaldandi undirbúningur að stofnun lyfjaverksmiðju í Malaví

Hananja hlaut 29.705.200 króna styrk til áframhaldandi undirbúnings við stofnun lyfjaverksmiðju í Malaví sem hlotið hefur nafnið Rephaiah. Sveinbjörn Gizurarson, prófessor í lyfjafræði, hóf undirbúning þess árið 2016 og hlaut 26,6 milljón króna styrk úr Heimsmarkmiðasjóði til þess árið 2021. Þeim hluta lauk í apríl fyrr á þessu ári með góðum árangri, en enn er nokkuð í land. Lokið er við að teikna verksmiðjuna, finna nauðsynlega innlenda samstarfsaðila, fá tilskilin leyfi og huga að tæknilegum undirbúningi. Verksmiðjan, sem áætlað er að muni koma til með að kosta 35 milljónir bandaríkjadala, á að framleiða lífsnauðsynleg lyf fyrir börn yngri en fimm ára og önnur lyf sem skortur er á í Malaví.

Næringaraukandi fæðuverkefni í Tansaníu

VAXA Technologies Iceland hlaut 30.000.000 króna styrk vegna verkefnis sem ætlað er að búa til grunnstaðal fyrir notkun á næringarbættum matvælum fyrir skólabörn á aldrinum 6-12 ára í Tansaníu með íslensku Ultra Spirulina mix (IUS-mix). Með verkefninu verður kannað hvernig neytendur taka þessari viðbót við hefðbundinn tansanískan mat. Matís hefur veg og vanda af gerð grunnstaðalsins og íslenskir læknar fylgjast með áhrifum fæðunnar á þroska, heilsu og vellíðan barnanna. Jafnframt á verkefnið að stuðla að aukinni þekkingu á mikilvægi næringar fyrir börn og veita þjálfun til að byggja upp innviði og ferla sem þarf til að innleiða verkefnið.

Þróun sjávarklasa á Kíribatí

Íslenski sjávarklasinn hlaut 26.548.694 króna styrk í tengslum við verkefnið „Global Ocean Clusters“ sem miðar að því að efla sjálfbærni og virði sjávarafurða á Kyrrahafseyjum. Unnið verður að því að þróa sjávarklasa með áherslu á fullnýtingu túnfisks í Kíribatí. Íslenski sjávarklasinn verður stuðningsaðili verkefnisins og byggir á reynslu sinni um 100% nýtingu fiskafurða. Stefnt er að því að verkefnið hafi jákvæð áhrif á matvælaöryggi, bláa hagkerfið og umhverfislega sjálfbærni en verkefnið samræmist jafnframt heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. 

Meðhöndlun brunasára hjá börnum í Afganistan

Kerecis hlaut 24.210.400 króna styrk í alþjóðlegt samstarfsverkefni sem snýr að því að bæta meðferð brunasára í Afganistan en Kerecis framleiðir roð til sáragræðinga. Tækni fyrirtækisins hefur reynst afar vel í meðferð vefjaskaða, hvort sem um er að ræða þrálát sár eða sár af völdum bruna. Verkefnið sem um ræðir snýr að meðhöndlun brunasára afganskra barna á brunadeild Indira Gandhi-barnaspítalans, þeim að kostnaðarlausu. Börn í Afganistan verða ósjaldan fyrir alvarlegum bruna, meðal annars vegna opinna eldstæða sem notuð eru til matseldar. Markmiðið er einnig að þjálfa heilbrigðisstarfsfólk í Afganistan til notkunar á þeirri árangursríku meðferð sem sáraroð Kerecis byggir á, til að bæta meðhöndlun sjúklinga og byggja þannig upp langtímahæfni starfsfólks í sjúkraþjónustu.

Lesa má nánar um Heimsmarkmiðasjóð atvinnulífs á vef sjóðsins.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum