Hoppa yfir valmynd
21. ágúst 2024 Utanríkisráðuneytið

Vinátta og viðskipti efst á baugi í heimsókn til Færeyja

Utanríkisráðherra ásamt aðalræðismanni Íslands í Færeyjum og viðskiptasendinefnd fyrir utan Bakkafrost, stærsta fyrirtæki Færeyja. - mynd

Tvíhliða samskipti og viðskipti Íslands og Færeyja voru í brennidepli í ferð utanríkisráðherra til Færeyja í vikunni. Með ráðherra í för var viðskiptasendinefnd skipuð fulltrúum ellefu fyrirtækja auk Íslandsstofu. Ferðin var að frumkvæði og tilstuðlan færeysk-íslenska viðskiptaráðsins en tilgangur ráðsins er að styrkja viðskiptatengsl Íslands og Færeyja. 

„Það er ánægjulegt að vera komin aftur til Færeyja með fulltrúum íslenskra fyrirtækja sem hafa áhuga á að styrkja viðskiptatengslin. Vinátta og tengsl Íslendinga og Færeyinga byggja á traustum grunni, meðal annars á sameiginlegum menningararfi og sögu. Við eigum það einnig sameiginlegt að vera fámennar eyþjóðir sem eiga hagsæld sína að þakka sömu atvinnugreinum. Þá hefur fríverslunarsamningur Íslands og Færeyja, Hoyvíkursamningurinn svokallaði, bæði eflt viðskipti og styrkt pólitísk tengsl landanna,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. 

Dagskrá ferðarinnar samanstóð af heimsóknum til ýmissa fyrirtækja í Færeyjum, svo sem á sviði laxeldis, nýsköpunar, ferðaþjónustu, sjóflutninga, orku og landbúnaðar. Þá fundaði sendinefndin einnig með Samtökum atvinnulífsins í Færeyjum. Jafnframt var fundað með Høgna Hoydal, utanríkis- og vinnumarkaðsráðherra Færeyja, um samskipti landanna og viðskipti þeirra á milli. Ráðherra átti að auki stuttan tvíhliða fund með Høgna Hoydal þar sem þau ræddu meðal annars stöðu deilistofna á Norður-Atlantshafi. Lýsti ráðherra yfir miklum vonbrigðum með nýgerðan samning Færeyja, Bretlands og Noregs um makríl. Ráðherra ítrekaði mikilvægi þess að vestnorrænu löndin stæðu saman þegar kæmi að gerð slíkra samninga. Þá átti ráðherra fund með Bjarna Kárasyni Petersen, dóms- og innanríkisráðherra, þar sem fjarskiptamál voru einna helst til umræðu.

  • Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra ásamt Høgna Hoydal, utanríkis- og vinnumarkaðsráðherra Færeyja. - mynd
  • Utanríkisráðherra átti einnig fund með Bjarna Kárasyni Petersen, dóms- og innanríkisráðherra Færeyja. - mynd

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta