Hoppa yfir valmynd
23. ágúst 2024 Utanríkisráðuneytið

Varnir Íslands æfðar á Norður-Víkingi 2024

Frá Norður-Víkingi 2022. - myndStjórnarráðið/Vilhelm Gunnarsson

Varnaræfingin Norður-Víkingur fer fram á Íslandi og hafsvæðinu kringum landið dagana 26. ágúst til 3. september. Megintilgangur æfingarinnar er að æfa varnir mikilvægra mannvirkja, varnir sjóleiða umhverfis Ísland, leit og björgun, gistiríkjastuðning og samhæfingu stofnana sem að verkefninu koma hér á landi. Um er að ræða reglubundna tvíhliða varnaræfingu Íslands og Bandaríkjanna með þátttöku fleiri vina- og bandalagsríkja.

Æfingin er haldin á grundvelli tvíhliða varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna frá 1951 og fer að jafnaði fram á tveggja ára fresti.

Auk Íslands og Bandaríkjanna taka þátt í æfingunni sveitir, flugvélar og skip frá Danmörku, Frakklandi, Hollandi, Noregi, Póllandi og Portúgal. Vegna æfingarinnar kemur hluti fastaflota Atlantshafsbandalagsins til landsins.  

Meginþungi æfingarinnar verður í og við öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli. Líkt og oftast er á fjölþjóðlegum æfingum þá leggja þátttakendur mikla áherslu á að æfa samhæfingu sveita og búnaðar þannig að bandalagsþjóðir geti unnið skipulega að samræmdum markmiðum.

Æfingin miðar þannig að því að mæta hefðbundinni hernaðarógn á landi, á sjó og í lofti en einnig fjölþáttaógnum og skemmdaverkum þar sem reynir ekki hvað síst á íslensk stjórnvöld og viðbrögð og viðbragðsgetu íslenskra stofnana.

Æfðar verða til dæmis uppgöngur í skip, viðbrögð við árás á mikilvæga innviði, kafbátaeftirlit, flutningur á búnaði og liðsafla til Íslands, gistiríkjastuðningur og samskipti við stjórnstöðvar hér á landi, sprengjueyðing, viðgerðir á flugbrautum eftir sprengjuárás, eldsneytisáfyllingar, leit og björgun og sjúkraflutningar. Hingað kemur meðal annars pólsk hersveit með færanleg – óvirk eldflaugavarnarkerfi til að verjast óvinveittum skipum.

Áætlað er að æfa sérstaklega borgaralega og hernaðarlega samvinnu og er horft til þess að herliðið aðstoði almannavarnir við rýmingu á svæði og flutning slasaðra í kjölfar náttúruhamfara. Alls taka um 1.200 manns þátt í æfingunni, þar af um 200 Íslendingar frá varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, Landhelgisgæslunni, Ríkislögreglustjóra, Almannavörnum og öðrum stofnunum.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta