Hoppa yfir valmynd
18. september 2024

Metþátttaka á jafnlaunadagsviðburði á vegum OECD og fastanefndar Íslands gagnvart OECD

Haldið er upp á alþjóðlega jafnlaunadaginn í dag í fimmta sinn. Í tilefni af deginum og í framhaldi af Ólympíuleikum og Ólympíumóti fatlaðra bauð sendiráð Íslands í París, sem einnig er fastanefnd gagnvart Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD), í samstarfi við OECD, til viðburðar um jöfn laun og jafnrétti í íþróttum, þann 12. september sl.

Haldið var upp á alþjóðlega jafnlaunadaginn í París með fjórða árlega jafnlaunadagsviðburðinum sem Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) og fastanefnd Íslands gagnvart OECD standa fyrir. Fjöldi afreksíþróttafólks og sérfræðinga á sviði jafnréttis í íþróttum tók þátt í viðburðinum sem fór fram í höfuðstöðvum OECD í París og í gegnum streymi.

Joanna Lohman, fyrrum bandarísk landsliðskona í knattspyrnu, flutti áhrifaríka opnunarræðu þar sem hún sagði frá sinni reynslu úr atvinnumennsku. Hún benti m.a. á skýra mismunun í aðstöðu og launum, þó að vissulega hafi einhver árangur náðst. Hin margverðlaunaða breska hjólreiðakona, Dame Laura Kenny, vakti athygli á hvernig skortur á sýnileika og fjölmiðlaumfjöllun um íþróttir kvenna kemur niður á fjárfestingum og möguleikum þeirra á styrkveitingum. Þetta hefur bein áhrif á möguleika þeirra til að ná árangri en launamunur kynjanna í íþróttaheiminum er víða gífurlegur og fæstar íþróttakonur geta lifað á atvinnumennsku einni. Opnunarinnleggin leiddu yfir í pallborðsumræður þar sem afreksíþróttakonur litu yfir farinn veg og ræddu eigin reynslu af því kynbundna misrétti sem er til staðar í íþróttaheiminum, sérstaklega þegar kemur að sýnileika, tækifærum, styrkveitingum og launagreiðslum.

Meðal þátttakenda voru þær Þóra Helgadóttir, fyrrum landsliðskona í knattspyrnu, Sophie Power, maraþonhlaupakona og stofnandi SheRaces, Elizabeth Broderick AO, stofnandi og framkvæmdastýra áströlsku samtakanna Champions of Change Coalition og fyrrum skýrslugjafi Sameinuðu þjóðanna fyrir afnám mismununar gagnvart stúlkum og konum, og Julia George, upplýsingafulltrúi bresku samtakanna Women in Sport. David Berri, prófessor við Suður Utah-háskóla og íþróttahagfræðingur, greindi jafnframt frá rannsóknum sínum á sviðinu. Hann lagði áherslu á að bein kynbundin mismunun væri til staðar sem ekki væri hægt að réttlæta með vísan í gæði, hagnað eða markaðslögmál eins og oft er haldið fram. Líkt og Joanna Lohman tók fram í ræðu sinni: “hvernig á afreksíþróttakona að ná besta mögulega árangri ef framlag hennar er metið óþarft?”

Mathias Cormann, framkvæmdastjóri OECD, og Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, ávörpuðu gesti í upphafi viðburðar. Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra og fastafulltrúi Íslands í París flutti lokaávarp.

Þátttaka í viðburðinum fór fram úr vonum en um 1400 manns, frá að minnsta kosti 48 löndum, fylgdust með í gegnum streymi til viðbótar við þá gesti sem sóttu viðburðinn í hátíðarsal OECD í París.

Ísland átti frumkvæði að því að koma jafnlaunadeginum á laggirnar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna árið 2019. Markmiðið með deginum er að stuðla að launajafnrétti og hvetja til frekari aðgerða til að markmið um jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf nái fram að ganga. Þetta er fjórða árið í röð sem Ísland og Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) standa fyrir jafnlaunadagsviðburði í höfuðstöðvum OECD í París.

Hægt er að horfa á viðburðinn hér: https://youtu.be/pQRXFyBU9GQ  

  • Joanna Lohman, fyrrum bandarísk landsliðskona í knattspyrnu, hélt áhrifamikla opnunarræðu - mynd
  • Dame Laura Kenny, margverðlaunuð bresk hjólreiðakona - mynd
  • Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, ávarpaði gesti í upphafi viðburðarins. - mynd
  • Mathias Cormann, framkvæmdastjóri OECD, ávarpaði gesti í upphafi viðburðarins. - mynd
  • Metþátttaka á jafnlaunadagsviðburði á vegum OECD og fastanefndar Íslands gagnvart OECD - mynd úr myndasafni númer 5
  • David Berri, prófessor við Suður Utah-háskóla og íþróttahagfræðingur, greindi jafnframt frá rannsóknum sínum á sviðinu - mynd
  • Þóra Helgadóttir, fyrrum landsliðskona í knattspyrnu tók þátt í pallborðsumræðum - mynd
  • Metþátttaka á jafnlaunadagsviðburði á vegum OECD og fastanefndar Íslands gagnvart OECD - mynd úr myndasafni númer 8
  • Sophie Power, maraþonhlaupakona og stofnandi SheRaces - mynd
  • Elizabeth Broderick AO, stofnandi og framkvæmdastýra áströlsku samtakanna Champions of Change Coalition - mynd
  • Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra, flutti lokaávarp - mynd
  • Starfsfólk sendiráðsins í París - mynd

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta