Hoppa yfir valmynd
27. september 2024 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra flytur ávarp í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna á morgun

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, ásamt Önnu Jóhannsdóttur, fastafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, og sendinefnd Íslands við opnun ráðherraviku allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna á þriðjudaginn. - mynd

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna fer nú fram í New York í 79. sinn, þar sem leiðtogar aðildarríkjanna 193 koma saman. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra flytur ávarp sitt í þinginu á morgun, laugardag, en hún hefur tekið þátt í fjölmörgum fundum og viðburðum í tengslum við ráðherraviku allsherjarþingsins í vikunni.

„Orð eru til alls fyrst og hér er umræðutorg heimsins, þar sem fulltrúar frá öllum heimshornum koma saman til að ræða hvernig við getum í sameiningu mætt þeim áskorunum sem alþjóðasamfélagið stendur frammi fyrir. Hér viljum við leggja okkar lóð á vogaskálarnar við efla traust milli ríkja, byggja brýr og styrkja alþjóðakerfið nú þegar hriktir í stoðum þess á þeim víðsjárverðu tímum sem við lifum,“ segir Þórdís Kolbrún.

Þórdís Kolbrún og Bjarni Benediktsson forsætisráðherra voru viðstödd opnun ráðherraviku allsherjarþingsins á þriðjudag. Síðar um daginn sátu þau sérstakan fund öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um Úkraínu þar sem Volodómír Selenskí Úkraínuforseti var meðal þeirra sem tóku til máls. Þá sótti hún kvöldverð Atlantshafsbandalagsríkja í boði Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á þriðjudag.

Á miðvikudaginn tók utanríkisráðherra þátt í sérstökum viðburði um brot talibana í Afganistan á samningi Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gegn konum. Fundurinn var haldinn í tilefni þess að Þýskaland, Holland, Kanada og Ástralía hefja nú ferli sem væntanlega lýkur með málshöfðun fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag og er Ísland í hópi sérlegra stuðningsríkja þessa framtaks.  

„Það er kominn tími til að heimurinn hlusti á afganskar konur og ákall þeirra um að talíbanar verði dregnir til ábyrgðar. Ísland leggur áherslu á þýðingarmikla þátttöku afganskra kvenna í því ferli og það var ánægjulegt að sjá stuðning við þetta mál þvert á heimshluta,“ segir utanríkisráðherra.

Dagskrá ráðherra á miðvikudaginn lauk svo á kvöldverðarfundi kvennutanríkisráðherra, en athygli vakti að Þórdís Kolbrún er ein aðeins nítján kvenna, af 193 ræðumönnum, sem ávarpa allsherjarþingið að þessu sinni.

Þórdís Kolbrún sótti auk þess fund um mannúðarástandið í Súdan þar sem hún flutti ávarp og tilkynnti um 70 milljóna króna viðbótarframlag Íslands til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) vegna þess ömurlega ástands sem ríkir í landinu af völdum átaka sem þar geisa. Þá ávarpaði utanríkisráðherra fund um ógnina sem felst í hækkun sjávarmáls, en málefni hafsins eru sem fyrr forgangsmál í íslenskri utanríkisstefnu. Þá sótti Þórdís í morgun ráðherrafund sem utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Hollands stóðu fyrir um hafréttarmál og öryggi á sjó.

Ráðherra átti meðal annars tvíhliða fund með Winston Peters, utanríkisráðherra Nýja Sjálands, í vikunni og fundaði einnig með Mariu Ressa, friðarverðlaunahafa Nóbels. Á dagskrá ráðherra í dag eru fleiri tvíhliðafundir, meðal annars með utanríkisráðherra Moldóvu. 

Eins og áður segir flytur utanríkisráðherra ávarp fyrir allsherjarþinginu annað kvöld. Reiknað er með að Þórdís Kolbrún stígi í ræðustól um klukkan 20.00-20.30 að íslenskum tíma og verður ávarpið sýnt í beinu streymi á vefsíðu Sameinuðu þjóðanna.

  • Utanríkisráðherra flytur ávarp Íslands á fundi um ógnina sem felst í hækkun sjávarmáls. - mynd
  • Utanríkisráðherra á sérstökum viðburði um brot talibana í Afganistan á samningi Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gegn konum. - mynd
  • Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Maria Ressa, friðarverðlaunahafi Nóbels. - mynd

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta