Hoppa yfir valmynd
20. nóvember 2024 Utanríkisráðuneytið

Aukið samstarf milli Íslands og Utah

Sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, Svanhildur Hólm Valsdóttir, undirritaði yfirlýsinguna fyrir hönd utanríkisráðuneytisins og Joel Ferry, yfirmaður náttúruauðlindamála hjá Utah, og Ryan Starks, yfirmaður skrifstofu ríkisstjóra fyrir efnahagsleg tækifæri, skrifuðu undir fyrir hönd Utah. Deidre M. Henderson vararíkisstjóri var viðstödd og vottaði yfirlýsinguna.  - myndOffice of the Lieutenant Governor of Utah

Aukið samstarf í orkumálum með áherslu á jarðvarmanýtingu, ferðaþjónustu, heilbrigðistækni, fjármálatækni og upplýsingatækni er efni viljayfirlýsingar Íslands og Utah-ríkis sem undirrituð var í þinghúsi Utah í Salt Lake City í síðustu viku. 

Fyrr á árinu kom fjórtán manna sendinefnd frá Utah til Íslands í þeim tilgangi að kynna sér íslenska sérþekkingu og regluverk í tengslum við jarðvarmanýtingu, en mikill áhugi og tækifæri eru til aukinnar nýtingar á jarðvarma í ríkinu. 

Sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, Svanhildur Hólm Valsdóttir, undirritaði yfirlýsinguna fyrir hönd utanríkisráðuneytisins og Joel Ferry, yfirmaður náttúruauðlindamála hjá Utah, og Ryan Starks, yfirmaður skrifstofu ríkisstjóra fyrir efnahagsleg tækifæri, skrifuðu undir fyrir hönd Utah. Deidre M. Henderson vararíkisstjóri var viðstödd og vottaði yfirlýsinguna. 

Við tilefnið var rætt um hin ýmsu tækifæri til samstarfs sem reifuð eru í viljayfirlýsingunni og mögulegar leiðir til að hrinda þeim í framkvæmd.

Heimsókn sendiherra til Utah var hluti ferðar í samstarfi við Íslandsstofu til valinna ríkja í vesturhluta Bandaríkjanna, Utah, Colorado og Kaliforníu, ásamt viðskiptafulltrúa Íslands í Bandaríkjunum og formanni íslenska orkuklasans. Tilgangur ferðarinnar var að fylgja eftir tækifærum og samstarfi á sviði jarðvarma- og loftslagslausna en starfsfólk sendiráðs Íslands í Bandaríkjunum hefur, ásamt Íslandsstofu, unnið markvisst að því á síðustu misserum að skapa tengsl og koma á framfæri íslenskri sérþekkingu á þessum sviðum í Bandaríkjunum. Hópurinn fundaði með fulltrúum ríkisstjórna ríkjanna þriggja, lykilaðilum á sviði orkumála og samtökum ríkisstjóra í Vestur-Bandaríkjunum sem hafa verið að setja jarðvarmanýtingu og grænar lausnir í forgang á síðastliðnum árum.

Í Denver, Colorado, undirritaði Árni Magnússon, formaður íslenska orkuklasans einnig viljayfirlýsingu á milli orkuklasans og Colorado School of Mines um aukið samstarf á sviði nýjunga í jarðvarmanýtingu og kolefnislausnum (CCS). Samstarfið kom til í kjölfar viðburðar um orkumál sem sendiráðið og Íslandsstofa stóðu fyrir í Denver fyrr á þessu ári. 

 
  • Frá undirritun viljayfirlýsingarinnar um aukið samstarf milli Íslands og Utah ríkis í Salt Lake City. - mynd

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta