Hoppa yfir valmynd
22. nóvember 2024 Utanríkisráðuneytið

Norðurlöndin einróma um öflugri stuðning við Úkraínu

Bjørn Arild Gram, varnarmálaráðherra Noregs, Antti Häkkänen, varnarmálaráðherra Finnlands, Troels Lund Poelsen, varnarmálaráðherra Danmerkur, Pål Jonson, varnarmálaráðherra Svíþjóðar, og Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins. - myndForsvarsministeriet

Áframhaldandi og öflugri stuðningur við varnarbaráttu Úkraínu og aukið samstarf Norðurlandanna á sviði öryggis- og varnarmála voru helstu umræðuefni fundar varnarmálaráðherra norrænu ríkjanna sem fram fór í gær. 

Auk fundar í norræna varnarsamstarfinu, NORDEFCO, áttu ráðherrarnir sömuleiðis fund með Eystrasaltsríkjunum og Norðurhópnum svokallaða, þar sem Bretland, Þýskaland, Pólland og Holland eiga sæti. Þá tók Rustem Umerov, varnarmálaráðherra Úkraínu, einnig þátt í hluta fundanna.

Í ljósi nýlegra atburða í Eystrasalti ræddu ráðherrarnir jafnframt fjölþáttaárásir og þörfina á að efla viðbúnað og viðbrögð við árásum á mikilvæga neðansjávarinnviði. Þá var rætt um stöðu mála í Úkraínu, horfur fyrir komandi ár og áframhaldandi stuðning Norðurlandanna og annarra samstarfsríkja við varnarbaráttu úkraínsku þjóðarinnar.

Á fundi norrænu ráðherranna  var farið yfir innleiðingu á nýrri langtímasýn fyrir NORDEFCO samstarfið, Vision 2030, sem miðar að því að efla samstarf ríkjanna í varnarmálum og styrkja framlag þeirra á vettvangi Atlantshafsbandalagsins. Þá var undirrituð viljayfirlýsing um að samræma flutningsleiðir milli Norðurlandanna til að greiða fyrir flutningi og för herafla á milli ríkjanna.

Fundirnir fóru fram dagana 20.-21. nóvember í Kaupmannahöfn, en Danmörk fer með formennsku í norræna varnarsamstarfinu í ár. Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins sótti fundina í fjarveru utanríkisráðherra.

  • Norðurhópurinn ásamt Rustem Umerov varnarmálaráðherra Úkraínu. - mynd

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta