Hoppa yfir valmynd
26. nóvember 2024 Utanríkisráðuneytið

Ólgutímar á alþjóðavettvangi og samkeppnishæfni í brennidepli á fundi EES-ráðsins

Kristján Andri Stefánsson, sendiherra Íslands í Brussel, Dominique Hasler, utanríkisráðherra Liechtenstein, Espen Barth Eide, utanríkisráðherra Noregs, Péter Sztáray, fulltrúi ungversku formennskunnar í ráði Evrópusambandsins, og Maroš Šefčovič, varafoseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.  - myndEFTA

Ólgutímar á alþjóðavettvangi og samkeppnishæfni voru meðal helstu umræðuefna á fundi EES-ráðsins og fundi með þingmannanefnd EFTA og ráðgjafarnefnd EFTA í gær.

Á fundunum lagði Ísland áherslu á að EES-samstarfið væri mikilvægur liður í að efla efnahagslegt öryggi og viðnámsþrótt þeirra ríkja sem standa að EES-samstarfinu. Var þar meðal annars vísað til samstarfs um netöryggi og vernd mikilvægra samfélagsinnviða. 

Ísland lagði mikla áherslu á að draga þyrfti úr íþyngjandi reglum á atvinnulífinu til að efla samkeppnishæfni innan EES. Samstarf EFTA-ríkjanna innan EES og ESB á sviði alþjóðlegra viðskiptamála var jafnframt til umfjöllunar, meðal annars í kjölfar forsetakosninganna í Bandaríkjunum.

Þýðing EES-samstarfsins hefði einungis aukist og sýndi hvernig samstarfs- og bandalagsríki gætu áfram unnið náið saman á viðsjárverðum tímum. Ísland og hin EFTA-ríkin innan EES lögðu einnig áherslu á að ný löggjöf ESB sem væri að miklu leyti ætluð til að takast á við áskoranir í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi og að efla hagvarnir ESB leiddu ekki til nýrra viðskiptahindrana á innri markaðinum. 

Árásarstríð Rússlands í Úkraínu og staðan fyrir botni Miðjarðarhafs voru í brennidepli í pólitísku samráði sem jafnframt fer fram í tengslum við fund EES-ráðsins. Þá voru málefni Norðurslóða einnig rædd.

EES-ráðið er pólitískur vettvangur EES-samstarfsins sem fer fram tvisvar á ári. Þar koma utanríkisráðherrar EFTA-ríkjanna innan EES til fundar við framkvæmdastjórn ESB, fulltrúa utanríkisþjónustu ESB og fulltrúa þess ríkis sem fer með formennsku í ráðherraráði ESB, en Ungverjaland fer nú með formennsku í ráðinu. Kristján Andri Stefánsson, sendiherra Íslands í Brussel, sat fundinn af Íslands hálfu í fjarveru ráðherra.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta