Hoppa yfir valmynd
5. desember 2024 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins ræddu stríðið í Úkraínu og átökin í Mið-Austurlöndum

Utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins. - myndNATO

Áframhaldandi stríðsrekstur Rússlands og stuðningur bandalagsríkja við varnarbaráttu Úkraínu, sem og átökin fyrir botni Miðjarðarhafs, voru helstu umræðuefni á utanríkisráðaherrafundi Atlantshafsbandalagsins sem lauk í gær í höfuðstöðvum bandalagsins í Brussel. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sótti fundinn. 

Ráðherrafundurinn hófst á þriðjudaginn á fundi með þátttöku Abdullah II, Jórdaníukonungs, þar sem átökin í Mið-Austurlöndum voru til umfjöllunar, sem og samstarf bandalagsins við ríki í suðrinu. Jórdaníukonungur hefur verið öflugur málsvari samstarfs við Atlantshafsbandalagið, en stefnt er að opnun tengiliðaskrifstofu í Amman á næsta ári.  

Fundað var í NATO-Úkraínuráðinu með utanríkisráðherra Úkraínu, Andrii Sybiha. Ríflega þúsund dagar eru frá því að Rússar hófu ólöglegt innrásarstríð sitt gegn Úkraínu og ítrekuðu utanríkisráðherrar bandalagsríkja áframhaldandi stuðning og samstöðu með Úkraínu í samræmi við ákvarðanir leiðtogafundar bandalagsins í júlí síðastliðnum. Kaja Kallas, nýr utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, tók jafnframt þátt í fundinum og fór yfir stuðning Evrópusambandsins við Úkraínu. 

Í gærmorgun funduðu utanríkisráðherrar bandalagsríkjanna í eigin ranni og voru málefni Úkraínu og Rússlands áfram til umfjöllunar. Ráðherrar ræddu m.a. leiðir til að bregðast við fjandsamlegum aðgerðum Rússa gegn bandalagsríkjum og er það liður í nýrri og víðtækari stefnumörkun bandalagsins gagnvart Rússlandi. Þá voru ræddar ýmsar þær öryggisáskoranir sem bandalagið stendur frammi fyrir, þ.m.t. fjölþáttaógnir og stuðningur Kína og annarra ríkja við grimmilegan stríðsrekstur Rússa. Á fundinum gafst einnig færi á að ræða eftirfylgni af ákvörðunum leiðtoga Atlantshafsbandalagsins í Washington í júlí og áherslur bandalagsins fram að leiðtogafundinum í Haag 2025. 

„Árásir Rússlands í Úkraínu eru linnulausar og fara stigmagnandi og Pútín lætur sig líf saklausra borgara í engu varða. Nú þegar ríflega eitt þúsund dagar af stríði eru að baki er enn mikilvægara að styðja Úkraínu dyggilega í sinni varnarbaráttu fyrir sjálfstæði og tilveru landsins og öryggi í Evrópu. Ísland mun þar áfram leggja sitt að mörkum,“ segir Þórdís Kolbrún. 

Norrænu utanríkisráðherrarnir nýttu einnig tækifærið til að eiga fund með utanríkisráðherrum Bandaríkjanna og Kanada auk þess sem Danmörk bauð til fundar Norðurlandanna með Tyrklandi um Úkraínu, átökin í Mið-Austurlöndum og önnur svæðisbundin málefni. Þá funduðu utanríkisráðherrar Norðurlandanna, Eystrasaltsríkjanna, Þýskalands og Póllands um Úkraínustríðið og öryggismál á Eystrasaltssvæðinu. Loks átti utanríkisráðherra fund með tékkneskum starfsbróður sínum um væntanlega loftrýmisgæslu tékkneska flughersins á Íslandi og önnur varnartengd málefni.

  • Frá fundi utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins sem fram fór í höfuðstöðvum bandalagsins í Brussel. - mynd

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta