Ísland í heiðurssæti á kvikmyndahátíðinni Les Arcs
Ísland verður í heiðurssæti hinnar virtu evrópsku kvikmyndahátíðar Les Arcs sem hefst á morgun og stendur yfir til 21. desember. Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra, verður viðstödd opnunina en hátíðin fer að vanda fram í frönsku Ölpunum. Fjöldi íslenskra kvikmynda hafa í gegnum tíðina tekið þátt og hlotið verðlaun á Les Arcs en þetta er í fyrsta sinn sem íslenskar kvikmyndir og tónlist eru í öndvegi. Tuttugu íslensk kvikmyndaverk verða sýnd á hátíðinni, þar á meðal kvikmyndirnar Ljósbrot í leikstjórn Rúnars Rúnarssonar og Snerting í leikstjórn Baltasars Kormáks sem sýndar verða á aðaldagskrá hátíðarinnar. Íslensk tónlist verður einnig í aðalhlutverki á hátíðinni, en sérstakt tónlistarþorp mun varpa ljósi á framlag Íslands til kvikmyndatónlistar. Þá munu Högni Egilsson og Lúpína koma fram á tónleikum.
Þátttaka Íslands á hátíðinni er skipulögð í samstarfi við Kvikmyndamiðstöð Íslands og Tónlistarmiðstöð, með stuðningi sendiráðs Íslands í París.