Ráðuneytisstjórar NB8-ríkjanna ræddu aðgerðir gegn fjölþáttaógnum Rússa
Samstarf og aðgerðir vegna fjölþáttaógna, svonefnds „skuggaflota“ og þvingunaraðgerðir gegn Rússlandi, sem og áframhaldandi stuðningur við varnarbaráttu Úkraínu voru helstu umræðuefni fundar ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneyta Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna sem haldinn var í Stokkhólmi 12.-13. desember síðastliðinn.
Ráðuneytisstjórarnir sammæltust um nauðsyn þess að efla samstarf og samhæfa aðgerðir gegn fjölþáttaógnum frá Rússlandi. Einnig ræddu þeir um nauðsyn þess að grípa til aðgerða gegn skuggaflota Rússlands bæði vegna umhverfissjónarmiða og til þess að tryggja skilvirkni þvingunaraðgerða gegn Rússlandi og var sérstök áhersla lögð á að takmarka ágóða rússneskra stjórnvalda á sölu olíu.
Ráðuneytisstjórarnir áréttuðu mikilvægi áframhaldandi stuðnings við varnarbaráttu Úkraínu. Samanlagður er stuðningur ríkjahópsins við Úkraínu einn sá dyggasti og er ríkur vilji til þess að tryggja að svo verði áfram.
Þá kynnti Katarina Areskoug, ráðgjafi í sérstökum ráðgjafahópi Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna sem veitir Úkraínu liðsinni vegna aðildarumsóknar að Evrópusambandinu, starf hópsins fyrir ráðuneytisstjórunum. Fulltrúar Íslands í ráðgjafahópnum eru Högni Kristjánsson og Stefán Haukur Jóhannessson, sendiherrar.
Norðurlöndin og Eystarasaltsríkin skipa NB8-ríkjahópinn og eiga þau í virku samráði og samstarfi. Var fundurinn sá síðasti á formennskuári Svíþjóðar í NB8 samstarfinu, en Danmörk tekur við formennskunni á næsta ári.
Bergdís Ellertsdóttir, staðgengill ráðuneytisstjóra, sótti fundinn fyrir Íslands hönd.