Hoppa yfir valmynd
20. desember 2024 Utanríkisráðuneytið

Ísland eykur stuðning við mannréttindasamtök í Úganda

Hildigunnur Engilbertsdóttir, forstöðumaður sendiráðs Íslands í Kampala, og Hassan Shire, framkvæmdastjóri DefendDefenders,  Sveinn H. Guðmarsson sendiráðunautur og Memory Bandera Rwampwanyi hjá DefendDefenders. - mynd

Framlög Íslands til samtakanna DefendDefenders hafa verið aukin en samtökin eru bakhjarl fólks sem berst fyrir mannréttindum í Austur-Afríku, þar á meðal réttindum hinsegin fólks. Þá hefur Ísland aukið stuðning við loftslags- og skólamáltíðarverkefni Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP) í Úganda og fjármagnar viðgerð og endurbætur á stórri vatnsveitu í flóttamannabyggð í norðurhluta Úganda.

Ísland hóf stuðning við DefendDefenders fyrir réttu ári en samtökin styðja við og vernda fólk sem berst fyrir mannréttindum, meðal annars hinsegin fólks, í Austur-Afríku og á Afríkuhorninu svonefnda. Höfuðstöðvar þeirra eru í Kampala í Úganda. Sendiráð Íslands í Kampala hefur nú undirritað nýtt samkomulag við DefendDefenders sem nemur 300.000 bandaríkjadölum, jafnvirði 41 milljónar króna. Um kjarnaframlag er að ræða en við ákvörðun um stuðning var sérstaklega litið til þess að forsetakosningar verða í Úganda eftir rúmt ár og mikilvægt að tryggja vernd þeirra sem berjast fyrir mannréttindum í aðdraganda þeirra. 

„Ólögin gegn hinsegin fólki í Úganda hafa verið í brennidepli undanfarin misseri og ekki síst þess vegna ákvað Ísland í fyrra að gerast bakhjarl þessara öflugu svæðisbundnu mannréttindasamtaka. Stuðningurinn Íslands hefur þýtt að samtökin hafa getað tryggt baráttufólki fyrir réttindum hinsegin fólks nauðsynlega vernd til að geta haldið málstað sínum á lofti,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Framlagið til WFP hljóðar upp á 750.000 bandaríkjadali, jafnvirði hundrað milljóna íslenskra króna. Um er að ræða framlengingu á loftslags- og skólamáltíðarverkefni Íslands og WFP sem hófst í byrjun þessa árs í Karamoja, fátækasta svæði landsins. Framhaldsverkefnið felur í sér uppsetningu á orkusparandi eldunarstöðu í 91 skóla með 75.590 nemendur auk trjáræktar og ræktun á sætum kartöflum, sem eru bæði næringarríkar, harðgerar og auðveldar í ræktun. Áætlað er að verkefnið styðji við uppsetningu á ræktarstöðvum á um 230 hektara svæði í Karamoja. Um er að ræða viðbót við skólamáltíðarkörfu WFP sem eykur fjölbreytni og stuðlar að fæðuöryggi nemenda. 

„Úganda er bæði viðkvæmt fyrir afleiðingum loftslagsbreytinga og er illa í stakk búið til að takast á við þær. Tvíhliða þróunarsamvinna Íslands í Úganda tekur í auknum mæli mið af þessum veruleika. Loftslagsverkefni okkar og WFP í Karamoja hefur gefist vel og því er rökrétt skref að víkka það enn frekar út í samræmi við þessa stefnu,“ segir Hildigunnur Engilbertsdóttir, forstöðumaður sendiráðs Íslands í Úganda. 

Loks hafa íslensk stjórnvöld ákveðið að fjármagna viðgerð og endurbætur á stórri vatnsveitu í flóttamannabyggð í Yumbe-héraði í norðvesturhluta Úganda, nærri landamærum Suður-Súdans. Meginæð vatnsveitunnar eyðilagðist í miklum flóðum í haust með þeim afleiðingum að tíu þúsund manns hafa ekki lengur tryggan aðgang að heilnæmu vatni. Stuðningurinn við vatnsveituverkefnið er í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) og hljóðar upp á 320.000 bandaríkjadali, jafnvirði 44 milljóna króna. Framlagið nýtist til að gera við lögnina, bæta flóðavarnir og þrefalda afkastagetu vatnsveitunnar þannig að hún nýtist 30.000 manns. Ekkert ríki Afríku tekur á móti jafn mörgum flóttamönnum og Úganda en fjöldi þeirra í landinu er hátt í tvær milljónir. 

 
  • Skólaeldhús í Karamoja. - mynd

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta