Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tekin við lyklavöldum í utanríkisráðuneytinu
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tók í dag við lyklavöldum í utanríkisráðuneytinu úr hendi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, fráfarandi utanríkisráðherra. Þorgerður Katrín er fimmta konan til að gegna embætti utanríkisráðherra.
Þorgerður Katrín er formaður Viðreisnar og hefur setið á þingi fyrir flokkinn frá árinu 2016. Hún tók fyrst sæti á þingi árið 1999 og var á árunum 2003 til 2009 menntamálaráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra frá 11. janúar til 30. nóvember árið 2017.
Þorgerður Katrín er fædd í Reykjavík 4. október 1965. Maki hennar er Kristján Arason og eiga þau börnin Gunnar Ara, Gísla Þorgeir og Katrínu Erlu.
Þórdís Kolbrún notaði tækifærið og þakkaði Þorgerði Katrínu fyrir að hafa verið einn helsti bandamaður hennar þegar kemur að öryggis- og varnarmálum. „Það hefur skipt ótrúlega miklu máli fyrir samfélag sem þarf að fullorðnast hratt, samfélag meðal þjóða í álfu og umheimi sem er að breytast rosalega hratt. Þannig ég er mjög glöð að þú sért að taka á móti þessum málaflokkum,“ sagði Þórdís Kolbrún.
„Þú ert alveg ótrúlega sterk fyrirmynd fyrir marga, einnig fyrir mig. Það er ekkert auðvelt að fara í þín spor. Þú ert búin að standa þig að mínu mati einstaklega vel sem utanríkisráðherra og staðið vörð um hagsmuni þjóðarinnar á mjög erfiðum tímum,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra.
Þorgerður Katrín er 26. utanríkisráðherra Íslands og fimmta konan sem gegnir embættinu líkt og fyrr segir.
Æviágrip utanríkisráðherra á vef Alþingis.