Ísland tekur sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna
Ísland tók formlega sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna nú um áramótin og mun sitja í ráðinu í samtals þrjú ár, eða til loka árs 2027.
„Ísland fær það ábyrgðarmikla verkefni að vera meðal aðildarríkja mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna á tímum þar sem sótt er að mannréttindum um heim allan. Á þessum þremur árum munum við láta að okkur kveða í baráttunni og tala hátt og skýrt fyrir því að öll ríki heims standi við alþjóðlegar mannréttindaskuldbindingar svo að við fáum öll notið sjálfsagðra réttinda og frelsis,” segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra.
„Auk þess að leggja kapp á að efla stoðir og samstöðu um grundvallarmannréttindi allra ætlum við í mannréttindaráðinu að leggja sérstaka áherslu á jafnréttismál, réttindi hinsegin fólks, réttindi barna og umhverfismál,” segir Þorgerður Katrín.
Yfirlit yfir helstu áherslur Íslands má finna hér og á sérstakri vefsíðu sem komið hefur verið á laggirnar í tengslum við setu Íslands í mannréttindaráðinu.
Auk Íslands taka sautján önnur ríki sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna um áramótin. Þetta er í annað sinn sem Ísland er kosið til setu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna en Ísland tók síðast sæti með skömmum fyrirvara sumarið 2018 þegar Bandaríkin sögðu sig úr ráðinu og sat þá í ráðinu út kjörtímabilið, til loka árs 2019.
Um mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna
Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna í Genf var sett á fót árið 2006 og tók við hlutverki mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem starfaði frá 1946. Hlutverk ráðsins er að efla og vernda mannréttindi í aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna, fjalla um mannréttindabrot, beina tilmælum til einstakra ríkja um úrbætur í mannréttindamálum og fjalla um einstök þematísk réttindamál.
Alls sitja 47 ríki í mannréttindaráðinu hverju sinni, þar af tilheyra sjö hópi Vestur-Evrópu og annarra ríkja (WEOG), þrettán koma frá Afríku, þrettán úr hópi Asíu- og Kyrrahafsríkja, átta úr hópi ríkja Rómönsku Ameríku og Karíbahafseyja og loks sex úr hópi Austur-Evrópuríkja.
Mannréttindaráðið fundar að jafnaði í þremur reglubundnum fundalotum á ári sem standa yfir í nokkrar vikur í senn. Auk þess fjallar ráðið ástand mannréttinda og framfylgd alþjóðlegra mannréttindaskuldbindinga í einstökum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna með svokallaðri allsherjarúttekt (Universal Periodic Review) sem fer fram í þremur lotum á ári hverju.
Á vegum mannréttindaráðsins starfa einnig sérstakir skýrslugjafar og vinnuhópar sem heimsækja ríki, skoða stöðu mannréttinda og veita ríkjum tilmæli í kjölfarið.
Skrifstofa mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna (Office of the High Commissioner for Human Rights, OHCHR) skipuleggur fundi mannréttindaráðsins og annast framkvæmd þeirra, jafnframt því sem hún sinnir vettvangsvinnu. Ísland styður starf skrifstofu mannréttindafulltrúans með fjárframlögum samkvæmt gildandi rammasamningi.