Utanríkisráðherra skipar fjóra í embætti sendiherra
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra hefur ákveðið að skipa Elínu Rósu Sigurðardóttur, Jónas G. Allansson, Maríu Mjöll Jónsdóttur og Ragnar G. Kristjánsson í embætti sendiherra án staðarákvörðunar samkvæmt 1. mgr. 9. gr. 39/1971 laga nr. 39/1971 um utanríkisþjónustu Íslands. Um er að ræða fyrstu skipanir í embætti sendiherra á grundvelli 1. mgr. 9. gr. laga nr. 39/1971 eftir að breytingar voru gerðar á lögunum árið 2020. Skipanirnar hafa enga kostnaðaraukningu í för með sér fyrir ríkissjóð.
Ráðgefandi hæfninefnd skipuð samkvæmt 6. mgr. 9. gr. laga nr. 39/1971 um utanríkisþjónustu Íslands lagði mat á hæfni umsækjenda. Nefndina skipuðu Einar Gunnarsson sendiherra, Bergdís Ellertsdóttir sendiherra og Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Elín Rósa Sigurðardóttir, skrifstofustjóri þróunarsamvinnuskrifstofu, hefur starfað innan utanríkisþjónustunnar frá 2006 og hjá þáverandi undirstofnun ráðuneytisins, Þróunarsamvinnustofnun Íslands (ÞSSÍ) frá 2001. Hún hefur lokið grunnnámi í alþjóðasamskiptum og hagfræði frá Schiller alþjóðaháskólanum í Þýskalandi og er með meistaragráðu í alþjóðasamskiptum frá Boston háskóla. Hjá ÞSSÍ starfaði Elín fyrst sem skrifstofustjóri í Reykjavík og síðar sem umdæmisstjóri í Mósambík. Elín Rósa hóf störf í ráðuneytinu sem sérfræðingur á alþjóða- og öryggissviði. Frá 2013 var hún staðgengill sendiherra í sendiráði Íslands í Osló og svo staðgengill sendiherra í sendiráði Íslands í Berlín. Elín hefur starfað sem skrifstofustjóri þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins frá árinu 2022.
Jónas G. Allansson, skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu, hefur starfað hjá utanríkisráðuneytinu í um 20 ár. Hann er með BA próf í mannfræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í mannfræði frá sama skóla. Þá stundaði hann doktorsnám í mannfræði við háskólana í Aberdeen og Kaupmannahöfn á árunum 2001-2005. Jónas var stjórnandi í eftirlits- og upplýsingateymi NATO í Afganistan árin 2005-2007 og framkvæmdastjóri norrænu vopnahléssveitanna í Srí Lanka 2007-2008. Jónas var umsjónarmaður borgaraþjónustu árið 2009 og starfaði í norðurslóðamálum árin 2010-2013. Árin 2013-2014 var hann deildarstjóri öryggis- og varnarmáladeildar. Hann var varafastafulltrúi í fastanefnd Íslands í NATO í Brussel og varafastafulltrúi í fastanefnd Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum í New York. Frá árinu 2022 hefur Jónas starfað sem skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu í utanríkisráðuneytinu.
María Mjöll Jónsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu alþjóðapólitískra málefna og stefnumótunar, hefur starfað innan utanríkisþjónustunnar frá árinu 2001. Hún er með BA próf í spænsku með stjórnmálafræði sem aukagrein frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í alþjóðastjórnmálahagfræði frá Colombia-háskóla í New York. Á árunum 2007-2015 starfaði María í fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York. Árið 2016 varð hún deildarstjóri málefna Sameinuðu þjóðanna á alþjóða- og öryggisskrifstofu utanríkisráðuneytisins og deildarstjóri upplýsinga- og greiningardeildar frá árinu 2018. Árið 2020 varð María Mjöll skrifstofustjóri alþjóða- og þróunarsamvinnuskrifstofu og frá árinu 2022 skrifstofustjóri alþjóðapólitískra málefna og stefnumótunar.
Ragnar G. Kristjánsson, skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu, hefur starfað innan utanríkisþjónustunnar frá árinu 1998. Ragnar er með BA próf í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands, meistaragráðu í Evrópufræðum frá Háskólanum í Hull, Bretlandi og diplómu í alþjóðlegum viðskiptarétti frá Háskólanum í Turku, Finnlandi. Hann hóf störf á varnarmálaskrifstofu árið 1998. Árin 2001-2007 starfaði hann hjá fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York. Þá varð hann varafastafulltrúi fastanefndar Íslands í Genf árið 2007. Frá 2011-2014 var hann deildarstjóri á viðskiptasviði utanríkisráðuneytisins. Ragnar var staðgengill sendiherra í sendiráði Íslands í Brussel árin 2014-2018 og varafastafulltrúi í fastanefnd Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu í Brussel árin 2018-2021. Frá ágúst 2021 hefur Ragnar starfað sem skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.