Ráðherra boðaði varðstöðu um alþjóðakerfið, mannréttindi og frelsið í stefnuræðu Íslands í mannréttindaráðinu
Ráðherravika 58. lotu mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna hófst í dag í Genf og flutti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra um hádegisbilið ávarp sitt í ráðinu.
Í ræðu sinni lagði ráðherra áherslu á að standa þurfi vörð um Sameinuðu þjóðirnar og alþjóðakerfið sem komið var á laggirnar eftir síðari heimsstyrjöld. Hart væri sótt gegn þeim gildum sem ríki heims hefðu þá sammælst um að virða og þá gagnrýndi ráðherra sérstaklega ólöglega allsherjarinnrás Rússlands í Úkraínu en þess er minnst í dag að þrjú ár eru síðan innrásin hófst.
Yfirráð kvenna yfir eigin líkama og réttindi hinsegin fólks voru utanríkiráðherra einnig hugleikin í ávarpinu í mannréttindaráðinu en sterk undiralda væri nú í þá átt að grafa undan árangri sem náðst hefur á umliðnum árum.
„Hvað mig varðar er eitt á hreinu; engin manneskja á að þurfa að lifa í ótta um ofsóknir eða ofbeldi. Þetta á við líka ef ofsóknirnar grundvallast á kynhneigð fólks eða kynvitund og Ísland mun ekki hika við að láta til sín taka á vettvangi mannréttindaráðsins fyrir fólk sem sætir slíkum ofsóknum, við munum ljá öllum þeim rödd sem berjast fyrir sjálfsögðum réttindum sínum. Við erum nefnilega öll fædd frjáls og njótum öll sömu réttinda,“ sagði Þorgerður Katrín.
Ráðherravika mannréttindaráðsins markar upphaf fyrstu fundarlotu mannréttindaráðsins síðan Ísland tók þar sæti um áramót eftir að hafa hlotið kjör til þriggja ára í atkvæðagreiðslu í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í október sl. Ræða utanríkisráðherra í mannréttindaráðinu var því einskonar stefnuræða vegna setunnar í ráðinu. Ráðherra vitnaði til þess að áttatíu ár eru á þessu ári liðin frá stofnun Sameinuðu þjóðanna og að mikilvægt væri að rifja upp þau gildi sem lögð voru til grundvallar í upphafi. Þau hefðu öll þjónað mannkyninu vel. Lagt hefði verið upp með áherslu á umburðarlyndi og manngildi, samstöðu um aðgerðir til að standa vörð um frið og öryggi í heiminum og viðleitni til að stuðla að þróun alls fólks og allra þjóða, bæði í efnahagslegu og félagslegu tilliti. Vissulega hefðu þessi markmið ekki alltaf náðst. Hernaðaraðgerðir Ísraels á Gaza í kjölfar hryðjuverkaárásar Hamas-samtakanna 7. október 2023 væru aðeins nýjasta dæmið um að stundum reynist alþjóðakerfinu ókleift að takast á við erfiðar áskoranir. Í raun væri staðan á Gaza eitt skýrasta dæmið um hvers vegna snúa þyrfti bökum saman í þágu gilda og fjölþjóðakerfis sem komið var á fót fyrir áttatíu árum. Það yrði ekki auðvelt og sannarlega þyrftu Sameinuðu þjóðirnar að taka breytingum og endurspegla betur þann heim sem við nú lifum í. Öllu skipti hins vegar að ítreka trú okkar á grundvallarmannréttindi, jafnan rétt alls fólks og allra ríkja heims, stórra sem smárra.
Utanríkisráðherra mun í heimsókn sinni til Genfar einnig flytja ávarp fyrir hönd Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna (NB8) á viðburði sem haldinn er til að minnast þess að þrjú ár eru liðin frá allsherjarinnrás Rússa í Úkraínu í dag og sömuleiðis flytur ráðherra ávarp fyrir hönd sömu ríkja á viðburði sem haldinn er í tilefni þess að 30 ár eru í ár liðin frá Peking-fundinum svokallaða um jafnréttismál. Hún fundar einnig með Volker Türk, mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna, Mirjönu Spoljaric Egger, forseta Alþjóðaráðs Rauða krossins, Dr. Ngozi Okonjo-Iweala, framkvæmdastjóra Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, auk þess sem hún mun eiga nokkra tvíhliða ráðherrafundi.
Um mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna
Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna í Genf var sett á fót árið 2006 og tók við hlutverki mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem starfaði frá 1946. Hlutverk ráðsins er að efla og vernda mannréttindi í aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna, fjalla um mannréttindabrot, beina tilmælum til einstakra ríkja um úrbætur í mannréttindamálum og fjalla um einstök þematísk réttindamál.
Alls sitja 47 ríki í mannréttindaráðinu hverju sinni, þar af tilheyra sjö hópi Vestur-Evrópu og annarra ríkja (WEOG), þrettán koma frá Afríku, þrettán úr hópi Asíu- og Kyrrahafsríkja, átta úr hópi ríkja Rómönsku Ameríku og Karíbahafseyja og loks sex úr hópi Austur-Evrópuríkja.
Mannréttindaráðið fundar að jafnaði í þremur reglubundnum fundalotum á ári sem standa yfir í nokkrar vikur í senn. Auk þess fjallar ráðið ástand mannréttinda og framfylgd alþjóðlegra mannréttindaskuldbindinga í einstökum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna með svokallaðri allsherjarúttekt (Universal Periodic Review) sem fer fram í þremur lotum á ári hverju.
Á vegum mannréttindaráðsins starfa einnig sérstakir skýrslugjafar og vinnuhópar sem heimsækja ríki, skoða stöðu mannréttinda og veita ríkjum tilmæli í kjölfarið.
Skrifstofa mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna (Office of the High Commissioner for Human Rights, OHCHR) skipuleggur fundi mannréttindaráðsins og annast framkvæmd þeirra, jafnframt því sem hún sinnir vettvangsvinnu. Ísland styður starf skrifstofu mannréttindafulltrúans með fjárframlögum samkvæmt gildandi rammasamningi.