Hoppa yfir valmynd
28. febrúar 2025 Utanríkisráðuneytið

Ísland beitir rödd sinni í þágu mannúðar og alþjóðalaga fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag

Kristján Andri Stefánsson, sendiherra Íslands gagnvart Hollandi, afhenti greinargerðina fyrir hönd íslenskra stjórnvalda. - mynd

Íslensk stjórnvöld undirstrika ófrávíkjanlegar skyldur Ísraels sem hernámsaðila að mannúðarrétti í greinargerð sem skilað var í dag til Alþjóðadómstólsins í Haag í ráðgefandi álitsmáli sem dómstóllinn hefur til umfjöllunar. Þá árétta stjórnvöld sömuleiðis ábyrgð Ísraels á að tryggja að þær stofnanir sem Sameinuðu þjóðirnar hafa falið sérstök hlutverk gagnvart íbúum á hernumdum svæðum Palestínu geti sinnt hlutverki sínu, þar á meðal Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNRWA). 

„Greinargerðin er til marks um áherslu okkar á virðingu fyrir alþjóðalögum og mikilvægi þess að láta rödd Íslendinga heyrast í þeim efnum. Öll ríki verða að fara að alþjóðalögum, þar með talið mannúðarlögum, og gildir þá einu hvort um er að ræða Ísrael eða önnur ríki. Um er að ræða grundvallarhagsmunamál fyrir Ísland enda eigum við sem fámennt ríki án eigin hers allt okkar undir því að þessar leikreglur séu virtar í hvívetna,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra. 

Greinargerðin miðar einnig að því að fylgja eftir afstöðu Íslands vegna átaka fyrir botni Miðjarðarhafs sem samþykkt var með þingsályktun 9. nóvember 2023. Þar segir meðal annars að Alþingi krefjist þess að alþjóðalögum sé fylgt í einu og öllu í þágu mannúðar, öryggis almennra borgara og verndar borgaralegra innviða.

Forsaga málsins er sú að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna óskaði, á grundvelli ályktunar sem samþykkt var 19. desember síðastliðinn, eftir ráðgefandi áliti Alþjóðadómstólsins í Haag um lagalegar skyldur Ísraels til að tryggja viðveru og starfsemi Sameinuðu þjóðanna, annarra alþjóðastofnana og þriðju ríkja á og í tengslum við hernumin svæði Palestínu. Ríkjum stendur til boða að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í skriflegri greinargerð sem Ísland nýtir sér með skilum á greinargerðinni í dag. 

Ísland greiddi atkvæði með umræddri ályktun í allsherjarþinginu í desember en Noregur hafði forystu um að leggja hana fram. Tilefnið er framganga ísraelskra stjórnvalda sem hafa bannað starfsemi UNRWA innan Ísraels sem og bannað samskipti stjórnvalda við stofnunina. Stofnanir Sameinuðu þjóðanna og einstök gjafaríki hafa veitt nauðsynlega mannúðaraðstoð til íbúa hernumdu svæðanna sem Ísrael er skylt að þjóðarétti að tryggja. Þar hefur UNRWA gegnt lykilhlutverki.

Þetta er í fyrsta skipti sem Ísland stendur eitt að greinargerð til Alþjóðadómstólsins, en á síðasta ári stóðu Norðurlöndin að sameiginlegri greinargerð í ráðgefandi áliti um lagalegar skyldur ríkja vegna loftslagsbreytinga.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta