Nýrri norrænni kvikmyndahátíð hleypt af stokkunum í hjarta Parísar
Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra Íslands, hélt opnunarræðu hátíðarinnar en einnig tóku til máls Gaëtan Bruel, framkvæmdastjóri frönsku kvikmyndamiðstöðvarinnar (Centre national du cinéma), Matthias Nohrborg, listrænn stjórnandi hátíðarinnar, Kjersti Mo, framkvæmdastjóri The Five Nordics og norsku kvikmyndamiðstöðvarinnar og Isabelle Gibbal-Ardi framkvæmdastjóri kvikmyndahússins Grand Action. Snerting, sem verður tekin til almennra sýninga í Frakklandi síðar á árinu, hlaut einróma lof viðstaddra. Annar aðalleikari myndarinnar, Pálmi Kormákur, sat fyrir svörum eftir sýninguna bæði frá skipuleggjendum hátíðarinnar og áhorfendum úr sal. Þá stóðu sendiráð Íslands og Finnlands í samstarfi við menningastofnun Finnlands í París fyrir móttöku í tilefni opnunarinnar.
Íslenskar kvikmyndir skipa mikilvægan sess á hátíðinni, en auk Snertingar var kvikmyndin Ljósvíkingar frumsýnd í Frakklandi að viðstöddum leikstjóranum Snævari Sölva Sölvasyni. Þá var kvikmyndin Elskling, eftir norsk-íslenska leikstjórann Lilju Ingólfsdóttur einnig sýnd á hátíðinni.
Viðburðurinn er samstarfsverkefni kvikmyndastofnana allra Norðurlandanna undir merkjum The Five Nordics, frönsku kvikmyndastofnunarinnar CNC, sænsku stofnunarinnar í París og frönsku stofnunarinnar í Svíþjóð, með stuðningi frá Norrænu ráðherranefndinni og norrænu sendiráðunum í Frakklandi.
Auk kvikmyndasýninga fór fram fagleg dagskrá þar sem áhersla var lögð á tengslamyndun franskra og norrænna kvikmyndaframleiðanda og sjálfbærni í kvikmyndagerð. Dagskrá hátíðarinnar má nálgast á vefsíðunni Visions nordiques.