Tugmilljarða ávinningur atvinnulífs og neytenda af EES-samningnum og fríverslunarsamningum Íslands vegna niðurfellingu tolla
Íslenskir útflytjendur nutu minnst 33 milljarða króna ávinnings af tollfríðindum á síðasta ári á grundvelli EES-samningsins og annarra fríverslunarsamninga sem gerðir hafa verið á grundvelli aðildar Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA). Ný úttekt utanríkisráðuneytisins, Skattsins og EFTA skrifstofunnar leiðir þetta í ljós.
„Ísland er opið og útflutningsmiðað hagkerfi sem hefur í áratugi verið leiðandi á alþjóðavettvangi við að skapa opið og sanngjarnt viðskiptaumhverfi,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra. „Við höfum unnið ötullega að því að byggja upp öflugt net fríverslunarsamninga, sem fella ekki aðeins niður tolla heldur skapa stöðug, reglumiðuð og fyrirsjáanleg viðskiptaskilyrði fyrir okkar atvinnulíf . Það er gleðiefni að sjá nú svart á hvítu hversu mikill ávinningur þessara samninga er fyrir íslenska útflytjendur og neytendur en ekki síður okkar samningsríki. Því er sérstaklega mikilvægt að halda á lofti nú á tímum vaxandi verndarstefnu og óvissu í alþjóðaviðskiptakerfinu.“
Af þessum 33 milljarða tollsparnaði má rekja 26,6 milljarða til fríðinda vegna EES-samningsins og tengdra viðskiptasamninga við Evrópusambandið (ESB). Tollsparnaður vegna fríðindameðferðar sem Ísland hefur samið um í öðrum fríverslunarsamningum EFTA-ríkjanna nam 6,3 milljörðum króna. Þar af er 4,1 milljarður króna vegna fríverslunarsamningsins við Bretland, 1,3 milljarðar vegna fríverslunarsamninga við önnur ríki sem EFTA hefur samið við og tæpur milljarður vegna EFTA-sáttmálans, sem er milli EFTA-ríkjanna fjögurra.
Úttektin sýnir meðal annars fram á tollsparnað að andvirði 14,6 milljarða króna af útflutningi áls til ESB, tólf milljarða tollsparnað af útflutningi sjávarafurða til ESB og Bretlands, 700 milljóna sparnað af útflutningi skyrs til Sviss, 160 milljóna sparnað af útflutningi unninnar matvöru til Suður-Kóreu og 670 milljóna sparnað af útflutningi sjávarafurða til Tyrklands.
Neytendur nutu sömuleiðis ávinnings af tollsparnaðir við innflutning til Íslands á grundvelli sömu samninga. Felldir voru niður 2,7 milljarðar í tollgreiðslur vegna innflutnings frá ESB, 1,9 milljarður vegna innflutnings frá Bretlandi og 155 milljónir vegna innflutnings frá EFTA-ríkjunum og öðrum þriðju ríkjum. Þar er nær alfarið um matvöru að ræða. Hlutfall tollfrjálsra viðskipta í innflutningi nam 97% á árinu 2023. Hafa ber í huga að Ísland innheimtir engan almennan toll af iðnaðarvörum og beinn tollsparnaður samningsríkja Íslands því lægri sem því nemur.
Úttektin byggir á upplýsingum um raunverulegar tollaniðurfellingar frá ESB, Bretlandi, öðrum aðildarríkjum EFTA og þeim ríkjum sem EFTA-ríkin hafa sameiginlega gert fríverslunarsamninga við. EFTA-ríkin hafa gert 33 fríverslunarsamninga við 44 ríki. Við gerð úttektarinnar bárust viðeigandi upplýsingar frá tuttugu ríkjum. Úttektin nær ekki til tvíhliða fríverslunarsamninga við Kína og Færeyjar og ekki heldur til niðurfellingar tolla sem eiga sér stað innan tollkvóta. Raunverulegar tollsparnaður vegna fríverslunarsamninga Íslands er því meiri en úttektin segir til um.
Nánari upplýsingar um úttektina má finna á heimasíðu EFTA.