Vel heppnuð sýningaropnun í embættisbústaðnum
Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra Íslands í París, opnaði sýningu á verkum listakonunnar Guðnýjar Rósu Ingimarsdóttur í embættisbústaðnum í París þriðjudaginn 25. mars sl. Sýningin er haldin í samstarfi við gallerí Irène Laub í Brussel þar sem Guðný Rósa hefur búið og starfað í fjölmörg ár.
Guðný Rósa hefur á sínum ferli unnið með fjölbreytta miðla en helsti efniviður hennar á sýningunni í embættisbústaðnum í París eru hinar ýmsu tegundir pappírs. Hún fær innblástur úr eigin reynslu og umhverfi og verk hennar einkennast af nákvæmni og einlægni.
Guðný Rósa stundaði nám við Myndlistar- og handíðaskóla Íslands og lauk framhaldsnámi frá L‘Ensav La Cambre í Brussel og í HISK í Antwerpen. Hún hefur haldið fjölda einkasýninga víðsvegar í Evrópu og á Íslandi og var valin til þess að halda yfirlitssýningu á verkum sínum á Kjarvalsstöðum árið 2021.
Sýning Guðnýjar Rósu í embættisbústaðnum stendur til 7. apríl 2025.
Fleiri verk listakonunnar eru sýnd í París um þessar mundir en sérstakur fókus er á verkum hennar á sýningunni Drawing Now 2025 sem opnaði í París í vikunni.
Ljósmyndir: Vera Pálsdóttir