Hoppa yfir valmynd

Frétt

17. desember 2013 Forsætisráðuneytið

Nýjar handbækur Stjórnarráðsins um stefnumótun og áætlanagerð, verkefnastjórnun o.fl.

Forsætisráðuneytið  hefur fyrir hönd Stjórnarráðs Íslands gefið út tvær handbækur um verklag innan ráðuneyta. Tilgangurinn með þeim er að bæta og samræma verklag. Um er að ræða handbók um opinbera stefnumótun og áætlanagerð og handbók um verkefnastjórnun fyrir Stjórnarráðið. Auk þess er handbók um lagasetningu í vinnslu. 

Þetta eru fyrstu útgáfur handbókanna og er hugsunin að endurskoða þær að ári liðnu og þróa áfram, að fenginni reynslu. Handbækurnar eru samræmdar að uppbyggingu og eiga að nýtast við skipulag ólíkra viðfangsefna. Þá er  unnið að endurskoðun og uppfærslu þriðju handbókarinnar, um undirbúning og frágang lagafrumvarpa. Gert er ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki fyrri hluta árs 2014 og námskeiðahald hefjist í kjölfarið. 

Handbækurnar voru unnar af sérfræðingum frá öllum ráðuneytum. Þær er hægt að nálgast hér á vefnum.

Unnið að bættu verklagi

Undanfarið hefur verið unnið að því innan Stjórnarráðsins að bæta verklag við stefnumótun, áætlanagerð og verkefnastjórnun.  Handbækurnar eru mikilvægur þáttur í því. Samhliða útgáfu þeirra  hefur verið unnið að  fræðslu og þjálfun starfsfólks, meðal annars með námskeiðum í Stjórnsýsluskóla Stjórnarráðsins.

Fjöldi starfsmanna innan Stjórnarráðsins hefur lokið námskeiðum um verkefnastjórnun og fyrsta námskeiðið sem byggist á handbók um stefnumótun og áætlanagerð er nýafstaðið. 

Nánar um handbækurnar:

Handbók um stefnumótun og áætlanagerð:

Í handbókinni er gerð grein fyrir grunnatriðum stefnumótunarfræða, mismunandi umfangi stefnumótunar og algengum afurðum slíkrar vinnu í ráðuneytum og stofnunum. Gefið er yfirlit yfir hið almenna stefnumótunarferli og þau sex skref sem þar eru lögð til grundvallar. Fjallað er nánar um hvert og eitt þessara skrefa, þ.e. skilgreiningu stefnusviðs, mótun stefnu, samþykkt stefnuskjals, innleiðingu stefnu, mati á stefnu og loks endurskoðun og breytingar á stefnu. Sérstök áhersla er lögð á málefnasviðsstefnur en jafnframt fjallað um almenn atriði og fleiri afurðir stefnumótunar. Handbókinni fylgir íðorðalisti yfir helstu hugtök og sniðmát fyrir stefnur og áætlanir. Handbókin er ætluð ráðuneytum en getur jafnframt nýst stofnunum í vinnu þeirra.

Handbók um verkefnastjórnun fyrir Stjórnarráðið:

Í handbókinni er fjallað um helstu tegundir verkefna í Stjórnarráðinu, verkefnayfirlit, verkefnavinnu og samsetningu verkefnishópa. Gerð er ítarleg grein fyrir verkefnisáætlunum og eyðublaði fyrir slíkar áætlanir í málaskrá Stjórnarráðsins. Sett eru upp dæmi um greiningar af ýmsu tagi sem verkefnisáætlun getur byggt á. Loks fylgja handbókinni sýnishorn ýmissa skjala, t.d. verkefnisáætlun. Handbókin byggir á meistaraverkefni í opinberri stjórnsýslu sem Bergný Jóna Sævarsdóttur, MPM, vann á árunum 2012 -2013 í samvinnu við starfshóp ráðuneyta um verkefna – og gæðastjórnun. 

Handbók um lagasetningu (í vinnslu):

Handbók um lagasetningu er væntanleg fyrri hluta árs 2014. Bókin felur í sér uppfærslu og endurskoðun á eldri handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa (2007). Verkefnið er unnið í samstarfi forsætisráðuneytis, skrifstofu Alþingis og fleiri aðila. Í nýrri útgáfu verður m.a lögð aukin áhersla á samráð á undirbúningsstigi og mat á áhrifum fyrirhugaðrar lagasetningar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta