Hoppa yfir valmynd

Frétt

20. febrúar 2018 Utanríkisráðuneytið

Endurnýjun á samningi í baráttunni gegn limlestingu á kynfærum kvenna

Guðlaugur Þór Þórðarson og Nafissatou Diop, yfirmaður samstarfsverkefnisins - mynd

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra skrifaði í dag undir endurnýjun á samningi við Mannfjöldasjóð Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) um stuðning til fjögurra ára við verkefni sem hefur það að markmiði að útrýma limlestingu á kynfærum kvenna og stúlkna.

Utanríkisráðuneytið hefur lagt áherslu á baráttuna gegn limlestingu á kynfærum kvenna og stutt verkefnið frá árinu 2011. Female Genital Mutilation/Cutting (FGM/C) nær til allra aðgerða sem fela í sér að ytri kynfæri kvenna eru fjarlægð að hluta til eða algerlega og þeirra áverka, andlegra og líkamlegra, sem koma til sökum slíkra aðgerða. Flestar stúlkur eru limlestar á aldrinum frá fæðingu til fimmtán ára aldurs og skaðinn er óbætanlegur.

„Limlesting á kynfærum kvenna er heilbrigðisvandamál, brot á mannréttindum og birtingarmynd á kynbundnu ójafnrétti og ofbeldi, og því mikilvægt að styðja við verkefni sem berjast gegn þessum skaðlegu siðum,“ segir Guðlaugur Þór.

UNFPA áætlar að rúmlega 200 milljónir kvenna í 30 löndum hafi orðið fyrir limlestingu á kynfærum. Langflest þessara landa eru í Afríku. Óttast er að 68 milljónir stúlkna verði limlestar með þessum hætti fyrir árið 2030 að óbreyttu. Menningarlegar ástæður og siðir liggja til grundvallar og styðja við þá hugmynd að FGM/C sé öllum stúlkum nauðsynleg sem hluti af undirbúningi þeirra fyrir hjónaband og fullorðinsár.

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) og UNFPA hafa frá 2008 unnið saman í baráttunni gegn FGM/C. Samstarfsverkefni UNICEF og UNFPA hefur það að meginmarkmiði að hraða afnámi FGM/C í sautján áherslulöndum verkefnisins.

 


Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta