Hoppa yfir valmynd

Frétt

24. ágúst 2018 Menningar- og viðskiptaráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Máltækniverkefni á áætlun

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Stefanía Guðrún Halldórsdóttir stjórnarformaður Almannaróms. - mynd
Samið hefur verið við sjálfseignarstofnunina Almannaróm um rekstur miðstöðvar máltækniáætlunar fyrir íslensku, að undangengnu útboði. Miðstöðin mun hafa yfirumsjón með framkvæmd og samhæfingu máltækniverkefnisins, verkáætluninni Máltækni fyrir íslensku 2018 – 2022 sem stýrihópur um máltækni fyrir íslensku lagði fram á síðasta ári og er nú fullfjármögnuð í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Stefanía Guðrún Halldórsdóttir, stjórnarformaður Almannaróms undirrituðu samninginn í Listasafni Íslands í vikunni.

„Það er við hæfi að svo mikilvægur samningur sé handsalaður á þessum vettvangi. Hér í safninu er nú horft aftur um 100 ár, í tilefni aldarafmælis fullveldisins en með máltækniverkefninu horfum við saman til framtíðar. Máltækniáætlunin er eitt mikilvægustu skrefanna sem við stígum nú til þess að tryggja betur framtíð íslenskunnar og þar með menningu okkar og sjálfstæði,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra af þessu tilefni.

„Það er breiðfylking að baki Almannarómi, að stofnuninni standa háskóla- og rannsóknarstofnanir, fyrirtæki og félagasamtök sem öll brenna fyrir þetta brýna verkefni að tryggja að íslenskan standi jafnfætis öðrum tungumálum í síbreytilegum tækniheimi. Markmið okkar er að stuðla að aðgengi almennings og atvinnulífs að nauðsynlegri máltækni svo framtíðin hljómi vel á íslensku,“ sagði Stefanía Guðrún Halldórsdóttir. „Næstu skref verða að móta okkur starfsáætlun, ráða framkvæmdastjóra og skipa fagráð. Við erum mjög spennt að spyrna þessu verkefni af stað.“

Meðal verkefna miðstöðvar máltækniáætlunar sem Almannarómur mun byggja upp verður að forgangsraða og skipuleggja innviði verkefnisins. Jafnframt mun miðstöðin annast val á framkvæmdaaðilum og sjá um samningsgerð fyrir einstaka verkliði. Einnig mun miðstöðin kynna möguleika máltækni fyrir fyrirtækjum og stofnunum, koma á samstarfi við erlend fyrirtæki sem þróa máltæknilausnir og fylgjast með möguleikum á fjölþjóðlegu þróunarsamstarfi í máltækni.

Áætlaður kostnaður við rekstur miðstöðvar máltækniáætlunar er 40 milljónir kr. á ári og er samningstíminn fimm ár. Kostnaður ríkisins við máltækniáætlunina til ársins 2022 er áætlaður 2,2 milljarðar.
  • Máltækniverkefni á áætlun    - mynd úr myndasafni númer 1
  • Máltækniverkefni á áætlun    - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta