Hoppa yfir valmynd

Frétt

24. nóvember 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Forsætisráðherra hélt opnunarerindi á málþingi um mannréttindi

Marija Burić, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. - mynd

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti í dag opnunarerindi á málþinginu Mannréttindavarsla á viðsjárverðum tímum: Hlutverk Evrópuráðsins til framtíðar sem fram fór í Hátíðarsal Háskóla Íslands. Aðalávarpið flutti Marija Burić, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins.

Í erindi sínu ræddi forsætisráðherra mikilvægi Evrópuráðsins fyrir þróun mannréttinda í álfunni allt frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Mannréttindi nái hins vegar auðvitað langt út fyrir Evrópuráðið og það sé sorgleg staðreynd að um allan heim verðum við vitni að hræðilegum mannréttindabrotum.

„Það er markvisst brotið á réttindum kvenna og stúlkna í löndum á borð við Íran og Afganistan; þeim er neitað um menntun og grundvallarréttindi, þær eru beittar ofbeldi og pyntingum og jafnvel drepnar. Þetta er skelfilegt og því fagna ég fundinum í dag í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í Genf um stöðuna í Íran sem haldinn var að frumkvæði Íslands og Þýskalands. En við þurfum líka að halda áfram að þrýsta á stjórnvöld í Afganistan og taka eindregna afstöðu með mannréttindum og kvenréttindum þar,“ sagði forsætisráðherra.

Fyrr í dag funduðu forsætisráðherra og framkvæmdastjóri Evrópuráðsins í Ráðherrabústaðnum en Ísland fer nú með formennsku í ráðinu. Þar ræddu þær m.a. formennskuna og fyrirhugaðan leiðtogafund Evrópuráðsins sem verður í Reykjavík í maí á næsta ári. Marija Burić heimsótti einnig skrifstofu jafnréttis- og mannréttindamála í forsætisráðuneytinu og fékk þar kynningu á jafnréttis- og mannréttindamálum á Íslandi.

Á morgun mun Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flytja ávarp á viðburði Evrópuráðsþingsins þar sem fjallað verður um stafrænt kynbundið ofbeldi í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi gegn kynbundnu ofbeldi. Hún mun einnig eiga fund með hópi kvenna í Evrópuráðsþinginu og loks mun forsætisráðherra funda með Tiny Kox, forseta Evrópuráðsþingsins, en stjórnarnefnd þingsins fundar í Reykjavík á morgun.

  • Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flytur opnunarerindið - mynd
  • Forsætisráðherra hélt opnunarerindi á málþingi um mannréttindi - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta