Streymi: Fjárfesting í börnum – lykillinn að farsæld
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Evrópuráðið standa fyrir eins dags ráðstefnu fimmtudaginn 30. mars um kosti þess að fjárfesta í börnum. Viðburðinn er skipulagður sem hluti af formennsku Íslands í ráðherranefnd Evrópuráðsins og er streymt hér að neðan.
Ráðstefnan mun fjalla um kosti þess að fjárfesta í börnum sem lykil að farsæld fyrir bæði þjóðir og einstaklinga. Meðal frummælenda á ráðstefnunni, auk Ásmundar Einars Daðasonar, eru Dr. Najat Maalla M'jid, sérlegur fulltrúi framkvæmdastjóra Sameinuðu Þjóðanna um ofbeldi gegn börnum, Ramesh Raghavan M.D., PhD., prófessor við New York háskóla og Benjamin Perks, yfirmaður hagsmunagæslu og herferða hjá UNICEF. Regína Jensdóttir, yfirmaður barnaréttindasviðs og umsjónarmaður réttinda barna hjá Evrópuráðinu, mun stýra ráðstefnunni en einnig munu sérfræðingar í innleiðingu farsældarlaganna á Íslandi taka til máls.
Árið 2021 samþykkti Alþingi lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, eða farsældarlögin. Lögin tóku gildi 1. janúar 2022 og verða innleidd næstu þrjú til fimm árin. Ásmundur Einar Daðason og Dr. Najat Maalla M'jid undirrituðu samning um samstarf ráðuneytisins og Sameinuðu Þjóðanna varðandi farsæld barna í febrúar 2023 í New York. Samningurinn byggir á farsældarlögunum og kveður á um þróun samþættra úrræða til að vernda börn gegn ofbeldi, samhliða þróun nýrrar aðferðafræði sem greinir og kortleggur ávinning samfélagsins af því að fjárfesta í betri þjónustu fyrir börn. Samstarfið felur í sér þróun og birtingu verklagsreglna og verkfæra sem vernda börn gegn ofbeldi og sýna á sama tíma fram á efnahagslegan ávinning af slíkum aðgerðum. Dr M’jid mun meðal annars fjalla um þetta samstarf og hvað það þýðir í kynningu sinni.
Dagskrá
Streymi
Ráðstefna hefst 30. mars kl. 9:00 og stendur til kl. 16:00: