Stýrinefnd Evrópuráðsins um réttindi barna fundar á Íslandi
Stýrinefnd Evrópuráðsins um réttindi barna (CDENF) fundar í Reykjavík í dag og á morgun um réttindi barna á grundvelli stefnu Evrópuráðsins í málefnum barna. Fundurinn er skipulagður sem hluti af formennskuáætlun Íslands í ráðherranefnd Evrópuráðsins.
Fundurinn í Reykjavík markar fyrsta skipti sem nefndin kemur saman utan höfuðstöðva Evrópuráðsins í Strassborg, þar sem nefndin fundar tvisvar á ári. Helstu málefni sem nefndin mun fjalla um í Reykjavík eru hvernig efla megi tilkynningar um ofbeldi gegn börnum, stuðla að fjölgun Barnahúsa í aðildarríkjum Evrópuráðsins og hlúa að réttindum og velferð úkraínskra barna.
CDENF er milliríkjastofnun Evrópuráðsins, skipuð sérfræðingum um réttindi barna frá öllum 46 aðildarríkjum ráðsins. Nefndin ber ábyrgð á að móta lagaviðmið til að efla réttindi barna, þar á meðal á sviði réttarkerfisins, berjast gegn ofbeldi gegn börnum, efla þátttöku barna og hafa umsjón með framkvæmd á nýsamþykktri stefnu Evrópuráðsins um réttindi barna (2022–2027).
Rætt var við Regínu Jensdóttur, lögfræðing, sem stýrir barnaréttarsviði Evrópuráðsins í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun (44:30).