Vel heppnuð ráðstefna um fjárfestingu í börnum
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Evrópuráðið stóðu í dag fyrir ráðstefnu á Hótel Reykjavík Natura um kosti þess að fjárfesta í börnum. Viðburðinn var hluti af formennsku Íslands í ráðherranefnd Evrópuráðsins.
„Það er engin fjárfesting betri en í börnum – vellíðan og farsæld þeirra skilar sér margfalt til baka til samfélagsins,“ sagði Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, í opnunarávarpi sínu. „Við erum lítið land og alþjóðlegt samstarf er okkur gríðarlega mikilvægt. Stefna Evrópuráðsins um réttindi barnsins og allt starf sem unnið er innan ráðsins skiptir miklu máli. Það gagnast ekki aðeins okkur á Íslandi, heldur er það einnig lykillinn að því að réttindi barnsins – óháð búsetu – verði að veruleika.“
Aðrir frummælendur á ráðstefnunni, auk Ásmundar Einars Daðasonar, voru Dr. Najat Maalla M'jid, sérlegur fulltrúi aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu Þjóðanna um ofbeldi gegn börnum, Ramesh Raghavan M.D., PhD., prófessor við New York háskóla og Benjamin Perks, yfirmaður hagsmunagæslu og herferða hjá UNICEF. Regína Jensdóttir, yfirmaður barnaréttindasviðs og umsjónarmaður réttinda barna hjá Evrópuráðinu, stýrði ráðstefnunni.
Dr. Najat Maalla M'jid ítrekar mikilvægi aðgerða með tilvísun í íslensku nálgunina við að tengja saman kerfin
Þá voru sérfræðingar ráðuneytisins sem hafa unnið að farsældarlögunum og innleiðingu þeirra með erindi um lögin og hagrænan ávinning af fjárfestingu í börnum, ásamt Ólöfu Ástu Farestveit, forstjóra Barna- og fjölskyldustofu. Einnig voru krakkar sem hafa verið ráðuneytinu til ráðgjafar varðandi farsældarlöggjöfina með erindi þar sem þeir fóru yfir mikilvægi þess að hafa börn með í ráðum þegar kemur að málefnum þeirra.
Ráðstefnan var haldin í kjölfar fundar Stýrinefndar Evrópuráðsins um réttindi barna (CDENF) sem haldinn var í Reykjavík 28. og 29. mars. Fundurinn í Reykjavík markaði fyrsta skipti sem nefndin kemur saman utan höfuðstöðva Evrópuráðsins í Strassborg, þar sem nefndin fundar tvisvar á ári. Helstu málefni fundarins í Reykjavík voru hvernig leiða megi til þess að ofbeldi gegn börnum sé ávallt tilkynnt, hvernig stuðla eigi að fjölgun Barnahúsa í aðildarríkjum Evrópuráðsins og hvernig hlúa skuli að réttindum og velferð úkraínskra barna.