Hoppa yfir valmynd

Frétt

21. júní 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Ferðamálastefna samþykkt á Alþingi: Áhersla á sjálfbærni og samkeppnishæfni

Ferðamálastefna samþykkt á Alþingi: Áhersla á sjálfbærni og samkeppnishæfni  - myndEydís Eyjólfsdóttir

Alþingi hefur samþykkt tillögu til þingsályktunar, sem ferðamálaráðherra lagði fram í apríl, um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030. Öðlast þingsályktunin þegar gildi. 

Með samþykkt þingsályktunar um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030 er um ákveðin tímamót að ræða sem birtist í heildstæðri stefnumótun á sviði ferðaþjónustu með víðtækri þátttöku haghafa og almennings. 

,,Vönduð og yfirgripsmikil vinna fjölda sérfræðinga og hagaðila skilar sér í metnaðarfullri framtíðarsýn sem ég bind miklar vonir við að muni auka stöðugleika og sjálfbærni ferðaþjónustunnar. Það er mikið gleðiefni inn í ferðasumarið að sjá hversu samstíga þingið er í að styðja við stærstu gjaldeyrisskapandi atvinnuveg þjóðarinnar og um leið að skorast ekki undan þeirri ábyrgð sem fylgir því að varðveita og virða landið okkar. Ég óska okkur öllum gleðilegs ferðasumar og hlakka til þess að fylgjast með metnaðarfullri aðgerðaáætlun raungerast á næstu árum," segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Vinna við ferðamálaáætlunina hefur staðið yfir í um tvö ár með þátttöku fjölda aðila. Um mitt ár 2022 hófst vinna við uppfærslu á stefnuramma ferðaþjónustunnar til 2030 og lauk henni í byrjun árs 2023. Í uppfærðum stefnuramma, sem myndar grunn að ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030, er að finna 12 áherslur sem deilast á fjórar lykilstoðir ferðaþjónustu; þ.e. efnahag, samfélag, umhverfi og gesti. 

Samkvæmt þingsályktuninni er framtíðarsýn íslenskrar ferðaþjónustu að vera leiðandi í sjálfbærri þróun á grunni jafnvægis á milli efnahags-, umhverfis- og samfélagslegra þátta. Í því felst að hér sé arðsöm og samkeppnishæf ferðaþjónusta sem starfi í sátt við bæði land og þjóð, að ferðaþjónustan stuðli að bættum lífskjörum og hagsæld á Íslandi og að ferðaþjónustan sé þekkt fyrir gæði og einstaka upplifun.  

Í maí 2023 skipaði ferðamálaráðherra sjö starfshópa sem falið var að vinna tillögur að aðgerðum inn í aðgerðaáætlun ferðamálastefnu til 2030. Var þar miðað við að stefnan og aðgerðaáætlunin yrði lögð fyrir Alþingi í formi tillögu til þingsályktunar á vorþingi 2024 og gekk sú tímaáætlun eftir. Verkefnið í heild sinni hefur verið leitt af stýrihóp á vegum menningar- og viðskiptaráðuneytis, með helstu haghöfum, og er nánari upplýsingar að finna um verkefnið á www.ferdamalastefna.is. 

Starfshóparnir sjö náðu utan um helstu þætti ferðaþjónustu, þ.e. sjálfbærni og orkuskipti, samkeppnishæfni og verðmætasköpun, rannsóknir og nýsköpun, uppbyggingu áfangastaða, hæfni og gæði, heilsu-, veitinga- og hvataferðaþjónustu og menningartengda ferðaþjónustu. 

Viðamikið samráð var haft við haghafa við gerð aðgerðaáætlunar frá maí 2023 til mars 2024, m.a. með fjölda vinnustofa og funda. Beint að þessari vinnu komu yfir 100 manns, og óbeint talsvert fleiri. Fyrstu drög að aðgerðum voru sett í samráðsgátt stjórnvalda í nóvember 2023 og var unnið úr þeim athugasemdum sem þar bárust. 

Frá 14. febrúar til 6. mars 2024 stóðu yfir opnir umræðu- og kynningarfundir ráðherra í öllum landshlutum um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030. Drög að þingsályktunartillögunni voru sett í samráðsgátt stjórnvalda frá 28. febrúar til 12. mars og í framhaldinu var farið yfir umsagnir og ábendingar, bæði af opnu fundunum og úr samráðsgátt, og vinnu við gerð draganna lokið af hálfu stýrihópsins. 

Á grunni framangreindrar vinnu var gengið frá tillögu til þingsályktunar um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030 og hún lögð fyrir Alþingi 15. apríl. Í þingskjalinu koma fram 43 skilgreindar aðgerðir sem ætlað er að fylgja eftir áherslum ferðamálastefnu og þeim markmiðum sem þar koma fram. Dreifast þær á lykilstoðir ferðaþjónustu. 

 

Meðal aðgerða má nefna: 

  • Markviss og viðvarandi markaðssetning á Íslandi sem áfangastað 
  • Innleiðing álagsstýringar á ferðamannastöðum 
  • Breytt fyrirkomulagi á gjaldtöku af ferðamönnum 
  • Aukið eftirlit með heimagistingu og hert skilyrði 
  • Grunninnviðir fyrir rannsóknir, greiningu og stefnumótun í ferðaþjónustu 
  • Uppbygging millilandaflugvalla styðji við dreifingu ferðamanna 
  • Endurskoðun á regluverki fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu og skilvirkara eftirlit 
  • Fjölgun fyrirtækja með umhverfis- og/eða sjálfbærnivottanir 
  • Efling náms í ferðaþjónustu þvert á skólastig 

Nánari upplýsingar má finna hér

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum