Hoppa yfir valmynd

Frétt

21. júní 2024 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ferðamönnum fjölgar milli ára og bókunarstaða áfram góð

Árið 2023 var gott ár í ferðaþjónustu á Íslandi og sóttu um 2,2 milljónir manna landið heim. Aðeins einu sinni áður höfðu erlendir ferðamenn verið fleiri. Það var árið 2018 þegar 2,3 milljónir erlendra ferðamanna lögðu leið sína hingað til lands. Ferðamenn sem komu hingað í fyrra eyddu að jafnaði meira en árið 2018.

Lítilleg fjölgun ferðamanna það sem af er ári

Árið 2024 byrjar vel þegar horft er til fjölda ferðamanna. Á fyrstu fimm mánuðum ársins voru tæplega 30 þúsund fleiri ferðamenn hér á landi en í fyrra, sem samsvarar 4% fjölgun frá fyrra ári. Fjölgun ferðamanna frá Bandaríkjunum hefur þannig vegið upp á móti lítilsháttar samdrætti í fjölda ferðamanna frá Evrópu. Þá heldur Asíumarkaður áfram að vaxa, en hann hefur verið lengi að ná sér á strik eftir heimsfaraldurinn.

 

Óvíst hvernig megi lesa í þróun kortaveltu vegna galla í gögnum

Þrátt fyrir fjölgun erlendra ferðamanna virðist dvalarlengd hafa styst ef marka má gögn um fjölda gistinátta á fyrstu fjórum mánuðum ársins (-6,5%) og eyðsla ferðamanna dregist saman (-7%) á sama tímabili. Þá má líklega rekja samdrátt í veltu að einhverju leyti til galla í gögnum um kortaveltu erlendra korta hér á landi þar sem fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa í auknum mæli nýtt sér erlenda færsluhirðingu en slík kortavelta sést ekki í opinberum kortaveltugögnum. Þannig er líklegt að kortavelta erlendra ferðamanna sé vanmetin í opinberum hagtölum.

Bókunarstaða í ferðaþjónustu áfram góð

Nýleg greining á bókunarstöðu ferðaþjónustunnar sem byggist á úrtaki hótela á höfuðborgarsvæðinu, sýnir að þrátt fyrir lítillega fækkun bókana í júní þá er bókunarstaðan betri frá og með ágúst og inn á mitt næsta ár m.v. sama tíma í fyrra. Þótt greinilega sé að hægja á vexti umsvifa í ferðaþjónustu, líkt og í hagkerfinu í heild, virðist orðum aukið að óveðurský séu yfir greininni og að Ísland sé dottið úr tísku meðal ferðamanna.

 

Aðrir hagvísar sýna áframhaldandi vöxt umsvifa

Í apríl fjölgaði starfandi í ferðaþjónustu á milli ára um nær 350 manns. Bílaleigubílum í umferð fjölgaði um 7% milli ára í júní og umferð á hringveginum í maí jókst um 4% milli ára. Umferðin jókst aðallega á Suðurlandi (5%) og Vesturlandi (4%).

Hægari vöxtur umsvifa er nauðsynlegur til að ná tökum á verðbólgu

Vöxtur ferðaþjónustunnar undanfarinna ára, í kjölfar rénunar heimsfaraldurs, hefur verið gífurlega mikill. Árið 2023 var eitt sterkasta ár greinarinnar til þessa en um þessar mundir er markmið hagstjórnar að hægja á vexti efnahagsumsvifa, bæði í ferðaþjónustu og öðrum atvinnugreinum, til þess að ná tökum á verðbólgu og skapa skilyrði fyrir lækkun vaxta hér á landi. Hagtölur um umsvif, bæði í ferðaþjónustu og í hagkerfinu í heild, virðast enn ekki benda til markverðs samdráttar þótt hægi á vextinum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum