Hoppa yfir valmynd

Frétt

28. ágúst 2024 Innviðaráðuneytið

150 milljónir í styrki til að fjölga óstaðbundnum störfum á landsbyggðinni

Húsavík - myndMynd/iStock

Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra hefur ákveðið að veita styrki, að fjárhæð allt að 150 milljónum kr. af byggðaáætlun, til að fjölga óstaðbundnum störfum á landsbyggðinni. Ríkisstofnanir á höfuðborgarsvæðinu eiga kost á að sækja um styrki til að ráða í óstaðbundin störf á þeirra vegum utan höfuðborgarsvæðisins, m.a. til að mæta kostnaði við aðstöðu fyrir starfsfólk. Málið var kynnt á ríkisstjórnarfundi í gær og voru ráðherrar hvattir til að nýta tækifærið til að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni.

Verkefnið er í takt við stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum og stefnumótandi byggðaáætlun sem Alþingi samþykkti fyrir tímabilið 2022-2036. Markmiðið er að fjölga atvinnutækifærum á landsbyggðinni með fjölbreyttum störfum og styrkja þannig búsetu í byggðum landsins. Fjallað er nánar um verkefnið óstaðbundin störf í aðgerðaáætlun byggðaáætlunar (aðgerð B.7).

Nánar um styrkina

Styrkir vegna óstaðbundinna starfa verða auglýstir í haust. Ríkisstofnanir sem staðsettar eru á höfuðborgarsvæðinu geta sótt um styrk vegna starfa sem ráðið verður í utan þess svæðis og er þeim ætlað að koma til móts við ferðakostnað og leigu á aðstöðu í vinnustaðaklösum.

Veita má styrk til stofnunar vegna starfs til allt að þriggja ára. Hámarksstuðningur við hvert starf getur numið allt að 2 milljónum króna á ári. Byggðastofnun mun annast umsjón með úthlutun styrkja og gerð samninga og verður árangur af verkefninu metinn fyrir lok árs 2025.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta