Hoppa yfir valmynd

Frétt

28. nóvember 2024 Dómsmálaráðuneytið

Verkefni sýslumanna færð á milli umdæma

Dómsmálaráðuneytið hefur undanfarið haft framkvæmd sérverkefna sýslumanna til skoðunar. Sérverkefni sýslumanna eru verkefni sem einu sýslumannsembætti er falið að annast á landsvísu, öfugt við svonefnd kjarnaverkefni sem öll embættin fara með framkvæmd á innan hvers umdæmis. Um er að ræða heildarskoðun á staðsetningu sérverkefnanna, bæði núverandi og nýrra sem færast til sýslumanna 1. janúar nk., og hefur áhersla verið lögð á að finna verkefnunum stað sem þykir til þess fallinn að bæta þjónustuna við almenning samhliða því að standa vörð um byggðamál.

Eftirfarandi breytingar koma til framkvæmda frá og með 1. janúar 2025:

  • Verkefni Sýslumannsins á Norðurlandi eystra á grundvelli laga 108/1999 um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög verða færð til Sýslumannsins á Vestfjörðum.
  • Verkefni Sýslumannsins á Norðurlandi vestra á grundvelli laga nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá verða færð til Sýslumannsins á Vestfjörðum.
  • Verkefni Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu við löggildingu fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala skv. lögum nr. 70/2015 um sölu fasteigna og skipa verða færð til Sýslumannsins á Norðurlandi eystra.
  • Verkefni sýslumanna við útgáfu sveinsbréfa verða færð til Sýslumannsins á Suðurlandi.

Auk framangreindra breytinga munu verkefni réttindagæslumanna, sem snúa að vali fatlaðra einstaklinga á persónulegum talsmanni og eftirliti með störfum þeirra, færast yfir til sýslumanna 1. janúar 2025.

Greining og mótun framtíðarstefnu í málefnum sýslumanna

Í febrúar 2024 setti dómsmálaráðherra af stað umfangsmikið verkefni við greiningu á starfsemi sýslumannsembætta landsins og mótun framtíðarstefnu fyrir málaflokkinn. Markmið vinnunnar er að bæta þjónustu við almenning, stuðla að hagkvæmari rekstri og styrkja starfsemi embættanna á landsbyggðinni, þ. á m. hlutverk þeirra sem miðstöðvar ríkisins í héraði. Byggðamálin eru mikilvægur útgangspunktur í þessari vinnu ráðuneytisins, sem jafnframt samræmist þeim áherslum sem birtast m.a. í aðgerð A.8 Stjórnsýslustöðvar ríkis í héraði samkvæmt stefnumótandi byggðaáætlun 2022-2036 og markmiðum málaflokks 10.3 Sýslumenn samkvæmt fjármálaáætlun 2025-2029.

Þótt stefnumótunar- og greiningarvinnunni sé ekki lokið var ákveðið að láta þá vinnu ekki tefja fyrir úrbótum í starfsemi sýslumannsembættanna sem þjóna þeim tilgangi að styrkja starfsemina á landsbyggðinni, samhliða því að létta á álagi embættisins á höfuðborgarsvæðinu.

Við ákvarðanatöku um staðsetningu sérverkefna var horft til eðlis starfans, þ.e. hvort starfið sé staðbundið þar sem það krefjist nálægðar við íbúa eða óstaðbundið og þá sé hægt að vinna það hvar sem er. Í öðru lagi var horft til samlegðar við önnur sérverkefni sem sýslumenn sinna þegar. Í þriðja lagi sanngjarnri skiptingu sérverkefna á milli sýslumannsembættanna og í fjórða lagi var horft til byggðasjónarmiða og þá sérstaklega aðgerð sem snýr að stjórnsýslustöðvum í héraði sem birtist í þingsályktun nr. 27/152 um stefnumótandi byggðaáætlun.

Á grundvelli heildarmats og að teknu tilliti til framangreindra sjónarmiða voru áðurgreindar tilfærslur verkefna ákveðnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta