Kærunefnd jafnréttismála vistuð hjá úrskurðarnefnd velferðarmála
Aðsetur kærunefndar jafnréttismála hefur færst frá skrifstofu jafnréttis- og mannréttindamála í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu til úrskurðarnefndar velferðarmála með samkomulagi við ráðuneytið.
Aðsetursskiptin tóku gildi við setningu nýrrar reglugerðar nr. 1320/2024 um kærunefnd jafnréttismála þann 8. nóvember síðastliðinn. Í reglugerðinni kemur fram að starfsmaður úrskurðarnefndar velferðarmála undirbúi fundi nefndarinnar, annist skjalastjórnun og sinni skrifstofuhaldi fyrir nefndina.
Kærunefnd jafnréttismála tekur til meðferðar kærur sem til hennar er beint og kveður upp skriflega úrskurði um hvort ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020, laga um jafna meðferð utan vinnumarkaðar, nr. 85/2018, og laga um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, hafi verið brotin.
Nefndin er skipuð þremur fulltrúum með embættis- eða meistarapróf í lögfræði. Skal formaður og annar hinna tveggja búa yfir sérþekkingu á sviði jafnréttismála. Núverandi formaður nefndarinnar er Ari Karlsson, lögmaður.
Hægt er senda rafræna kæru og nálgast rafrænt eyðublað á vefsíðu kærunefndarinnar. Netfang nefndarinnar er knj@knj.is.