Hanna Katrín Friðriksson tekur við lyklavöldum í matvælaráðuneytinu
Nýskipaður atvinnuvegaráðherra, Hanna Katrín Friðriksson, tók við lyklum að matvælaráðuneytinu úr hendi Bjarna Benediktssonar sem gegnt hefur embætti matvælaráðherra síðan 17. október sl.
Hanna Katrín er fædd í París, Frakklandi þann 4. ágúst 1964. Maki hennar er Ragnhildur Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar og eru dætur þeirra þær Elísabet og Margrét. Hanna Katrín lauk stúdentsprófi frá MR 1985, tók BA-próf í heimspeki og hagfræði frá HÍ 1999 og MBA-próf frá University of California Davis árið 2001.
Hanna Katrín hefur gegnt margvíslegum störfum og setið í nefndum og ráðum á vegum fyrirtækja, samtaka og á vegum hins opinbera. Hún var blaðamaður á Morgunblaðinu 1990–1999, forstöðumaður viðskiptaþróunar Icepharma 2010–2012, sat í stjórn MP banka 2011–2014, var framkvæmdastjóri heilbrigðissviðs Icepharma 2012–2016 og alþingismaður Reykjavíkurkjördæmis suður fyrir Viðreisn frá 2016, formaður þingflokks Viðreisnar 2016–2024, sat í fjárlaganefnd 2017, umhverfis- og samgöngunefnd 2017–2021 og atvinnuveganefnd 2021–2024.
Með breytingum á skipulagi Stjórnarráðsins og færslu verkefna milli ráðuneyta sem ráðgert er að taki gildi 1. mars nk., mun heiti matvælaráðuneytis breytast í atvinnuvegaráðuneyti. Málefni viðskipta, neytendamála og ferðamála munu þá færast til ráðuneytisins frá menningar- og viðskiptaráðuneyti. Einnig færast málefni iðnaðar til ráðuneytisins frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu. Málefni skógræktar og landgræðslu auk dýravelferðar færast þá frá ráðuneytinu til umhverfis,- orku- og loftslagsráðuneytis.