Málþing um stafrænt kynbundið og kynferðislegt ofbeldi gegn konum
Málþing um stafrænt kynbundið og kynferðislegt ofbeldi sem Ísland stóð fyrir í samstarfi við Finnland fór fram í Helsinki, dagana 6.-7. febrúar 2025.
Ríkin sem tóku þátt í málþinginu og vinnustofum deildu reynslu sinni, aðferðum og góðum starfsháttum við að leitast við að sporna gegn stafrænu kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi í ljósi síbreytileika netofbeldis og þess að stafrænir miðlar eru í auknum mæli notaðir til að hamla jafnrétti og stuðla að ofbeldi.
Málþingið var vel sótt af fulltrúum stjórnvalda og óháðum sérfræðingum frá Íslandi og Finnlandi ásamt 15 öðrum ríkjum: Austurríki, Belgíu, Kýpur, Tékklandi, Danmörku, Eistlandi, Frakklandi, Ítalíu, Lettlandi, Litháen, Möltu, Hollandi, Rúmeníu, Slóvakíu og Slóveníu. Fulltrúar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Evrópsku jafnréttisstofnunarinnar (EIGE) tóku einnig þátt.
Sérfræðingur Íslands á málþinginu var María Rún Bjarnadóttir, yfirlögfræðingur og staðgengill ríkislögreglustjóra.
Málþingið er hluti af skuldbindingum Íslands í alþjóðlegu átaki UN Women, Kynslóð jafnréttis (e. Generation Equality Forum).
Á málþinginu var lögð áhersla á mikilvægi forvarna og fræðslu um alvarleika ofbeldis á netinu og um þau úrræði sem í boði eru. Auk þess var þörfin á betri gagnaöflun og rannsóknum til umræðu. Sérstaklega var fjallað um leiðir til þess að koma í veg fyrir stafrænt ofbeldi og aðgerðir til þess að auðvelda þolendum aðgengi að stuðning og réttlæti í gegnum réttarvörslukerfið.