Konur, friður og öryggi
Dómsmálaráðherra, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir flutti ávarp á viðburðinum „Konur, friður og öryggi í breyttum heimi“ sem haldinn var í Mannréttindahúsinu í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna fyrr í dag. Viðburðurinn var skipulagður af Öryrkjabandalagi Íslands í samstarfi við UN Women á Íslandi.
Í ræðu sinni lagði ráðherra áherslu á mikilvægi jafnréttismála og sagði jafnrétti eitt af forgangsmálum sínum í starfi:
„Ofbeldi gegn fötluðum konum er sérstakt áhyggjuefni. Sú staðreynd að fatlaðar konur eru mun líklegri til að verða fyrir kynbundnu ofbeldi er óásættanleg og verður að fá sérstaka athygli,” sagði Þorbjörg Sigríður og benti á að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar væri áhersla lögð á jafna stöðu og jöfn réttindi allra og að standa með jaðarsettum hópum.
Ísland tók nýverið sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og tók ráðherra skýrt fram að eitt af helstu forgangsmálum þar verði að efla mannréttindi kvenna og stúlkna:
„Ég hyggst nýta þann vettvang vel til að tala fyrir mikilvægi kynjajafnréttis fyrir allar konur og stúlkur, í allri þeirra fjölbreytni.”