Utanríkisráðherra ávarpaði ráðstefnu UNESCO um stöðu kvenna og stúlkna í Afganistan
Bágborin staða kvenna og stúlkna í Afganistan var til umræðu á ráðstefnu sem haldin var að frumkvæði Íslands hjá Mennta-, menningar- og vísindastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) í París í dag í tengslum við alþjóðlegan baráttudag kvenna, 8. mars. Myndbandsávarp Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra var flutt í upphafi ráðstefnunnar en þar lagði ráðherra áherslu á að alþjóðasamfélagið mætti ekki gleyma mannréttindum afganskra kvenna og stúlkna.
„Alþjóðasamfélagið verður að styðja vel við afganskar konur og stúlkur svo þær njóti fullra mannréttinda, þar á meðal réttarins til menntunar. Baráttan verður að vera óþreytandi og markviss til að tryggja að réttindi afganskra kvenna og stúlkna verði áfram í brennidepli á alþjóðasviðinu,“ sagði utanríkisráðherra m.a. í ávarpi sínu.
Áður hafði Xing Qu, aðstoðarramkvæmdastjóri UNESCO, ávarpað fundinn og fjallað sérstaklega um hlutverk UNESCO bæði á sviði mennta- og menningarmála í Afganistan. Í pallborðsumræðum tók svo fjölbreyttur hópur afganskra kvenna þátt og greindu þær frá þeirri gríðarlega erfiðu stöðu sem blasir við þeim í kjölfar valdatöku Talíbana árið 2021.
Afganistan er nú eina ríkið í heiminum þar sem stúlkum er óheimilt að stunda nám frá 12 ára aldri. Þá mega konur aðeins njóta heilbrigðisþjónustu af hendi annarra kvenna en á síðasta ári var þeim bannað að sækja sér heilbrigðismenntun. Þetta stefnir lífi og heilsu hálfrar þjóðarinnar í hættu en dánartíðni er nú þegar sú hæsta í heimi meðal kvenna í Afganistan og glímir hálf þjóðin við mikla fátækt. Að lokum voru flutt myndskeið með vitnisburðum kvenna í Afganstan þar sem þær lýstu bágbornum aðstæðum sínum og voru líflegar umræður í sal.
UNESCO ber ábyrgð á heimsmarkmiði fjögur um menntun og sinnir mikilvægu hlutverki í Afganistan. Stofnunin hefur meðal annars þjálfað kennara sem sinna kennslu í héruðum Afganistan og fyrir afganskt flóttafólk í nágrannaríkjum, í samstarfi við frjáls félagasamtök. Stofnunin hefur einnig skipulagt fjarkennslu, rekið kennsluþætti í útvarpi og gert samninga við erlenda samstarfsháskóla svo konur geti lokið háskólanámi utan landsteinana. Ísland situr í framkvæmdastjórn UNESCO 2021-2025 og hefur í stjórnartíð sinni leitt samningaviðræður um ályktanir um stöðu kvenna og stúlkna í Afganistan í samstarfi við vinahóp Afganistan í UNESCO.