Hoppa yfir valmynd

Frétt

10. mars 2025 Dómsmálaráðuneytið

Stígamót fagna 35 ára afmæli

Frá málþinginu „Útrýmum kynferðisofbeldi“. - mynd

Í tilefni 35 ára afmælis Stígamóta var haldið málþing undir yfirskriftinni Útrýmum kynferðisofbeldi.

Málþingið fór fram í Veröld-húsi Vigdísar 6. mars. sl og tók Steinunn Valdís Óskarsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu jafnréttis- og mannréttindamála, þátt í samtali í forföllum ráðherra dómsmála, jafnréttis og mannréttindamála og þakkaði Stígamótum fyrir þeirra ómetanlega starf og lagði áherslu á að samtökin hefðu haft mikil áhrif í baráttunni gegn kynferðisofbeldi. Hún lagði áherslu á mikilvægi grasrótarsamtaka eins og Stígamóta og nefndi að samstarf milli slíkra samtaka og stjórnvalda væri lykillinn að árangri á sviði jafnréttis og mannréttinda.

Langtímasamningur um verkefnið Sjúkt spjall

Steinunn Valdís áréttaði að ráðherra ætlaði að  leggja sérstaka áherslu á baráttu gegn kynbundnu ofbeldi og upplýsti að ráðherra hygðist með langtímasamningi styðja við starf Stígamóta með samningi um verkefnið Sjúkt spjall. Sjúkt spjall er netspjall þar sem ungmenni á aldrinum 13-19 ára geta í trúnaði leitað fræðslu og fengið stuðning um ýmislegt sem tengist samböndum, samskiptum og ofbeldi. Markmiðið er bæði að styðja þolendur við að losna úr ofbeldissamböndum og aðstoða gerendur við að láta af ofbeldi.

Þá mun ráðherra efna til aðgerða gegn kynbundnu ofbeldi, m.a. setja af stað vinnu við tímasetta aðgerðaáætlun gegn mansali, ljúka vinnu við landsáætlun um framkvæmd Istanbúl-samningsins, samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi, og efna til vitundarvakningar um hann. Einnig verður ráðist í markvissa kynningu á samningi Sameinuðu Þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum (CEDAW).

Viðburðurinn var afar vel sóttur og endurspeglaði sterkan vilja til að halda áfram baráttunni fyrir jöfnum réttindum og öryggi allra.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta