Leiðbeiningar um sýnileika verkefna sem hljóta styrk úr sjóði Evrópusambandsins um landamæri og áritanir
Evrópusambandið vill auka vitund almennings um möguleika á styrkveitingum úr sjóðum sínum. Því ber öllum styrkþegum sem hljóta styrk úr sjóði Evrópusambandsins um landamæri og áritanir að tryggja að aðkoma Evrópusambandsins að styrkveitingunni sé sýnileg og almenningur upplýstur um hana.
Ef styrkþegi uppfyllir ekki skyldur sínar um sýnileika og gerir ekki ráðstafanir til að uppfylla þær getur framkvæmdaraðili sjóðsins (e. managing authority), skv. 3. tl. 50 gr. CPR[1] reglugerðar Evrópusambandsins, fellt niður allt að 3% af stuðningi sjóðsins við viðkomandi verkefni.
Með því að þiggja styrk samþykkir styrkþegi einnig að vera á skrá yfir styrkveitingar sem birtast opinberlega á vefsíðu sjóðsins, í samræmi við 49 gr. CPR. Á vefsíðu sjóðsins verður upplýsingum einnig miðlað til almennings um hlutverk og árangur sjóðsins og þar veittur aðgangur að landsáætlun.
Allar sýnileikaaðgerðir skulu innihalda merki Evrópusambandsins í samræmi við viðauka IX við CPR reglugerð Evrópusambandsins. Merkið er hægt að nota eitt og sér, eða með vísun í fjármögnunarfyrirkomulagið. Leitast skal við að nota íslenska útgáfu þegar vísað er í fjármögnunarfyrirkomulagið[2].
Hér má nálgast helstu merkingar Evrópusambandsins
Sýnileiki verkefna er þríþættur
1. Tilkynning til almennings
- Tilkynning um styrkveitinguna skal birta á heimasíðu og/eða samfélagsmiðlum styrkþega.
- Það er í höndum styrkþega hvenær tilkynning er birt, s.s. við upphaf og/eða lok verkefnis.
- Í tilkynningunni skal taka fram:
- Vísun í sjóð Evrópusambandsins um landamæri og áritanir.
- Dæmi: Styrkur fékkst úr sjóð Evrópusambandsins um landamæri og áritanir til framkvæmdarinnar.
- Upplýsingar um fjármögnunarfyrirkomulagið og hvernig kostnaðarhlutdeild skiptist (t.d. 75% frá sjóðnum og 25% frá styrkþega).
- Upplýsingar um tilgang verkefnisins og árangur. Ef of snemmt er að tala um árangur verkefnis er hægt að segja frá því hverju verkefnið á að skila.
- Merki Evrópusambandsins. Merkið eitt og sér eða með texta sem vísar til fjármögnunarfyrirkomulags (samfjármögnun).
- Vísun í sjóð Evrópusambandsins um landamæri og áritanir.
2. Tilkynning til starfsmanna
- Styrkþega ber að upplýsa þá starfsmenn sem taka þátt í verkefninu um fjármögnun þess.
- Einnig væri ráðlagt að birta upplýsingar fyrir aðra starfsmenn, t.d. á innri vef, upplýsingar um verkefnið og styrkveitinguna.
- Í tilkynningum til starfsmanna ber að vísa í sjóð Evrópusambandsins um landamæri og áritanir. Einnig er hægt að benda á heimasíðu sjóðsins.
3. Búnaður og afurðir verkefnis skulu merktar Evrópusambandinu
- Aðkoma sjóðsins skal vera sýnilegá öllum skjölum og samskiptagögnum sem tengjast framkvæmd verkefna, sem birta skal opinberlega, með birtingu merkis Evrópusambandsins.
- Allur búnaður skal vera merktur Evrópusambandinu í samræmi við viðauka IX við CPR reglugerð Evrópusambandsins. Við merkingar á smærri búnaði fást límmiðar afhentir hjá starfsmönnum sjóðsins.
- Felist verkefnið í því að kaupa hlut eða fjármagna byggingarframkvæmdir og heildarframlag til verkefnisins er hærra en 100.000 evrur skal styrkþeginn setja upp varanlegan, áberandi veggskjöld af umtalsverðri stærð sem gefur til kynna að verkefni hafi verið samfjármagnað af Evrópusambandinu, með merki Evrópusambandsins í lit og tilvísun í sjóðinn. Merkingar af þessu tagi skal útbúa eftir leiðbeiningum frá starfsmönnum sjóðsins.
Merki Evrópusambandsins og vísun í Sjóðinn
- Hér má nálgast helstu merkingar sem starfsmenn sjóðsins mæla með.
- Reglur um notkun á merkinu (https://commission.europa.eu/system/files/2021-05/eu-emblem-rules_en.pdf)
- Hér er hægt að hlaða niður merkinu ásamt tilvísunum um samfjármögnun, á ensku og íslensku, í ýmsum útgáfum og litum (https://ec.europa.eu/regional_policy/information-sources/logo-download-center_en)
- Starfsmenn sjóðsins veita frekari leiðbeiningar um sýnileika og útvega stafræn merki (logo) og límmiða merkingar.
Sjá einnig:
Stofnanir
Tenglar
Landamæraeftirlit
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.