Hoppa yfir valmynd

Lífeyrissjóðir

Fjármála- og efnahagsráðuneytið fer með framkvæmd laga um lífeyrissjóði og setur ráðherra reglugerðir á grundvelli laganna. Fjármálaeftirlitið annast eftirlit með starfsemi lífeyrissjóða og vörsluaðilum lífeyrissparnaðar.

Íslenska lífeyriskerfið skiptist í þrjá megin þætti, almannatryggingar, lífeyrissjóði og frjálsan einstaklingsbundinn sparnað.

  • Almannatryggingar: Opinbert tryggingakerfi sem fjármagnað er með sköttum. Tryggingastofnun ríkisins sér um framkvæmd almannatrygginga en til almannatrygginga teljast lífeyristryggingar, sjúkratryggingar og slysatryggingar. Stofnunin starfar í samræmi við lög um almannatryggingar og lög um félagslega aðstoð.
  • Lífeyrissjóðir: Kerfi er byggir á skylduaðild að lífeyrissjóðum með fullri sjóðsöfnun. Lífeyrissjóðir starfa á grundvelli laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997, og í sumum tilvikum á grundvelli sérlaga.
  • Frjáls einstaklingsbundinn lífeyrissparnaður: Í daglegu tali nefndur séreignarsparnaður eða viðbótarlífeyrissparnaður. Byggir á ákvæðum laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Getur verið í vörslu lífeyrissjóða, banka, sparisjóða, verðbréfafyrirtækja eða líftryggingafélaga.

Helstu efnisatriði lífeyrislaganna

Skyldutrygging lífeyrisréttinda

  • Skyldutrygging lífeyrissjóða er skilgreind og gerður er greinarmunur á lágmarkstryggingavernd og viðbótartryggingavernd.
  • Lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs er 15,5% af launum en heimilt er að semja um hærra hlutfall.
  • Skattyfirvöld hafa eftirlit með greiðslu lágmarksiðgjalds.
  • Aðild að lífeyrissjóði er ákveðin í sérlögum, kjarasamningi, ráðningarsamningi eða með öðrum sambærilegum hætti.

Samningar um lífeyrissparnað

Launamenn á aldrinum 16–70 ára geta gert sérstakan samning um lífeyrissparnað við bankastofnun, verðbréfafyrirtæki, líftryggingafélag eða lífeyrissjóð vegna iðgjalda til séreignar eða viðbótartryggingaverndar. Lífeyrissparnaður getur farið inn á bundinn reikning eða til kaupa á sparnaðartryggingu. Viðbótartryggingavernd getur bæði byggst á lífeyrissparnaði skv. II. kafla og samtryggingu skv. III. kafla.

Réttindi í lífeyrissjóðum

Í III. kafla laganna eru reglur um lífeyrisréttindi sem grundvölluð eru á samtryggingu. Ekki er lögbundið hvaða kerfi skuli notað við útreikning lífeyrisréttinda. Útborgun ellilífeyris getur á hinn bóginn í fyrsta lagi hafist við 60 ára aldur og greiðist ávallt ævilangt. Jafnframt eru sett lágmarksskilyrði um rétt til örorku-, maka- og barnalífeyris.

Hjúskaparaðilum er veitt heimild til að skipta lífeyrisréttindum á milli sín með gagnkvæmum hætti.

Skilyrði lífeyrissjóðsrekstrar og starfsleyfi

Starfsemi lífeyrissjóðs skal lúta að móttöku, varðveislu og ávöxtun iðgjalda og greiðslu lífeyris.

Samkvæmt lögunum er ekki heimilt að starfrækja lífeyrissjóð nema hann hafi fullgilt starfsleyfi skv. V. eða XI. kafla.

Að jafnaði skulu minnst 800 sjóðfélagar greiða iðgjöld til lífeyrissjóðs reglulega í mánuði hverjum, nema sjóðurinn tryggi áhættudreifingu vegna skuldbindinga sinna með öðrum hætti í samræmi við tryggingafræðilega athugun.

Lífeyrissjóður ábyrgist skuldbindingar sínar með eignum sínum. Iðgjaldagreiðendur bera ekki ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins með öðru en iðgjöldum sínum.

Árlega skal stjórn lífeyrissjóðs láta fara fram tryggingafræðilega athugun á fjárhag sjóðsins í samræmi við 39. gr. og ákvæði reglugerðar sem ráðherra setur.

Rekstur og innra eftirlit

Í VI. kafla laganna er starfssvið og ábyrgð stjórnar og framkvæmdastjóra skilgreint. Þá er í kaflanum kveðið á um innra eftirlit lífeyrissjóða en það getur annaðhvort verið í höndum sjálfstætt starfandi eftirlitsaðila eða eftirlitsdeildar sem starfrækt er við sjóðinn. Eftirlitsdeildum eða eftirlitsaðila er ætlað að gegna svipuðu hlutverki hjá lífeyrissjóðum og endurskoðunardeildir gegna hjá bönkum eða lánastofnunum og vörslufyrirtæki að hluta til hjá verðbréfasjóðum.

Eignir og skuldbindingar standist á

Í 39. gr. laganna er kveðið á um það með afdráttarlausum hætti að jafnvægi eigi að vera milli eigna og skuldbindinga lífeyrissjóða. Komi í ljós við tryggingafræðilega athugun að munur á eignum og skuldbindingum er yfir 10% eða meiri en 5% samfellt í fimm ár ber lífeyrissjóði að grípa til viðeigandi ráðstafana. Geta þær ráðstafanir leitt annars vegar til skerðingar á lífeyrisréttindum og hækkunar iðgjalds eða hins vegar til aukningar á lífeyrisréttindum og lækkunar iðgjalds, allt eftir því hvað segir í samþykktum og hvernig sjóðurinn stendur.

Fjárreiður lífeyrissjóða

Í sérstökum köflum laganna er fjallað um fjárreiður og eignir lífeyrissjóða, svo og um ársreikninga og endurskoðun. Í lífeyrissjóðalögunum er að finna meginreglur um heimildir lífeyrissjóða til að ávaxta eignir sínar á grundvelli fyrir fram kunngerðrar fjárfestingarstefnu.

Skrá yfir lífeyrissjóði

Skrá yfir lífeyrissjóði sem hafa starfsleyfi samkvæmt lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, eða staðfestar samþykktir samkvæmt sérlögum er að finna á vef Seðlabanka Íslands.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 26.9.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta